Mannbjörg á Faxaflóa

  • Mannbjörg á Faxaflóa 3

Föstudagur 15. ágúst 2008
Um kl. 6:30 í morgun bárust Landhelgisgæslunni boð í gegnum Neyðarlínuna um að leki hefði komið að bátnum Eggja-Grími ÍS-702 sem er 6 tonna skemmtibátur. Báturinn var staddur á miðjum Faxaflóa. Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-EIR og björgunarbátar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar voru send áleiðis. Einnig voru nærstödd skip beðin um að halda í átt til Eggja-Gríms, m.a. báturinn Happasæll KE-94 sem var nærstaddur.

Þyrlan kom að Eggja-Grími um kl. 7:40 og var fyrst á staðinn. Sigmaður þyrlunnar seig þá niður í Eggja-Grím með dælu og var gerð tilraun til að dæla sjó úr bátnum. Er verið var að reyna að koma dælunni í gang kom Happasæll á vettvang. Þá var byrjað að gera ráðstafanir til að koma línu á milli bátanna. Á svæðinu var vestanátt, vindur 10-15 metrar á sekúndu og ölduhæð 3-4 metrar.

 Mannbjörg á Faxaflóa

Skyndilega tók áhöfn Happasæls eftir því að Eggja-Grímur var að sökkva. Þá tókst sigmanni þyrlunnar og áhöfn Happasæls að koma öðrum skipverjanum um borð í Happasæl. Svo sökk báturinn og sigmaður þyrlunnar og annar skipverja fóru í sjóinn.  Þá stökk einn skipverja Happasæls í sjóinn með björgunarhring.  Tókst sigmanni og skipverja Happasæls þar næst að koma skipbrotsmanninum um borð í Happasæl en hann var þá orðinn mjög þrekaður.

 Mannbjörg á Faxaflóa 3

Kl. 8:30 fékk stjórnstöð Landhelgisgæsunnar tilkynningu um að Eggja-Grímur væri sokkinn og tveggja manna áhöfn hans ásamt sigmanni Landhelgisgæslunnar komnir heilu og höldnu um borð í Happasæl.

Mannbjörg á Faxaflóa 2 

Þar næst voru báðir skipbrotsmennirnir ásamt sigmanni hífðir um borð í þyrluna þar sem læknir í áhöfn þyrlunnar hlúði að þeim. Þeir voru fluttir til Reykjavíkur en þangað kom þyrlan kl. 9 í morgun. Fengu skipbrotsmenn frekari aðhlynningu á sjúkrahúsi.

 

Meðfylgjandi myndir tók Hannes Petersen læknir í áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar.

 

Dagmar Sigurðardóttir lögfr./Ásgrímur L. Ásgrímsson yfirm. stjórnstöðvar LHG