Gullbergi VE-292 bjargað við Klettsnef

Miðvikudagur 12. nóvember 2008

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst í morgun, kl. 06:28 útkall á rás 16 frá Gullberg VE 292 um að skipið væri vélarvana  með tólf menn um borð við Klettsnef, utan við innsiglinguna til Vestmannaeyja.  Óttaðist að reka upp í klettana því stífur austan vindur var á svæðinu. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði samstundis út Björgunarfélagið í Vestmannaeyjum og Lóðsinn sem brugðust hratt við. Ekki var talin þörf á þyrlu LHG.

 Kl. 06:54 barst tilkynning frá Gullbergi um að togarinn væri kominn á síðuna á Lóðsinum, væri úr hættu og kominn inn fyrir hafnargarðinn. Var togarinn kominn að bryggju í Vestmannaeyjum kl. 07:06. 

Gullberg er 37 m. Langt togskip, alls 340 brl., með 12 manns í áhöfn.

12.11.2008/HBS