Cospas-Sarsat gervihnattakerfið hættir þann 1. febrúar að vinna úr merkjum neyðarsenda á 121,5 og 243 MHz

  • Neydarsendar

Miðvikudagur 10. desember 2008.

Sá þáttur sem vegur einna þyngst, þegar kemur að öryggi íslenskra sjófarenda, flugmanna og ferðamanna, er að um borð í bátum þeirra, skipum og flugförum séu neyðarsendar sem bera boð tafarlaust til Stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og sýna þá helst GPS staðsetningu þeirra sem lenda í neyð eða vanda. Einnig er mikilvægt fyrir ferðafólk, svo sem veiðimenn sem eru oft á tíðum á svæðum sem eru utan alfaraleiða, að hafa GPS tæki í fórum sínum, eins konar neyðarhnapp sem virkar hvar sem er í heiminum.

Því vill Landhelgisgæslan vekja athygli á því að þann 1. febrúar 2009 mun alþjóðlega Cospas-Sarsat gervihnattakerfið hætta að vinna úr merkjum neyðarsenda á 121,5 og 243 MHz og mun eftir þann tíma einungis vinna úr merkjum neyðarsenda sem eru á tíðninni 406 MHz.

Af þessum sökum er mjög mikilvægt fyrir sjófarendur og flugrekendur að yfirfara - og ef þörf er á, skipta út neyðarsendum, sérstaklega í öllum gúmbjörgunarbátum íslenskra skipa. Landhelgisgæslan mælir með að nýir neyðarsendar á 406 MHz séu búnir GPS staðsetningarbúnaði. Staðsetningar með GPS eru eins og flestir vita mjög nákvæmar eða 60-100 metrar í radíus, sem styttir leitartíma hvort sem er á sjó eða á landi. Biðtími er innan sex mínútna frá ræsingu nýju sendanna þar til Stjórnstöð LHG fær upplýsingar og getur brugðist við þeim. Áríðandi er að sendarnir verði settir sem allra fyrst í alla báta, ekki síst björgunarbáta.

Cospas-Sarsat ákvað að hætta úrvinnslu merkja frá neyðarsendum á 121,5/243 MHz í samráði við Alþjóða flugmálastofnunina (ICAO) og Alþjóða siglingamálastofnunina (IMO) þar sem sárafáar sendingar á þessari tíðni hafa reynst vera raunveruleg neyðartilvik, auk þess er ónákvæmni staðsetninga veruleg.

Þessi breyting hefur að mati LHG afar jákvæð áhrif vegna fólks í neyð, en ekki síður vegna leitar- og björgunaraðagerða (SAR).
Nánar hér

10.12.2008/HBS