Skip íslenskra aðila skera sig úr við notkun SafeSeaNet

Þriðjudagur 16. Desember 2008

Svo virðist sem skip á vegum íslenskra aðila á siglingu til íslenskra hafna skeri sig úr vegna lítillar þátttöku í Safe Sea Net-rafrænu tilkynningakerfi skipa (SSN) á vegum Evrópusambandsins. Þetta sýnir mánaðarleg skýrsla EMSA (European Maritime Safety Agency) en þar kemur fram að aðeins ellefu íslenskar skráningar komu fram í kerfinu í nóvember en samkvæmt tölum Stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar hefðu þær í raun átt að vera áttatíu og níu. Hlutfallslega eru þetta ekki nema rétt rúm 12%.

Ef litið er til annarra landa má sjá að í 100% tilfella eru hafnarkomur til Þýskalands, Möltu, Slóveníu, Spánar og Svíþjóðar tilkynntar í gegnum SSN kerfið en meðaltalið er á bilinu 65-75% hjá þeim löndum sem innleitt hafa kerfið. Mikilvægt er fyrir íslenska aðila og skip á þeirra vegum að tileinka sér kerfið en því er ætlað m.a. að leysa af hólmi tilkynningaskjal um komur sem undanfarin ár hefur verið í notkun í Stjórnstöð LHG/Vaktstöð siglinga.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/Vaktstöð Siglinga tók Safe Sea Net í notkun fyrr árinu. Kerfið er rafrænt kerfi fyrir tilkynningar skipa á evrópska efnahagssvæðinu um komur til hafna og um flutning hættulegs farms. Kerfið á stoð í tilskipun Evrópusambandsins 2002/59/EB og lögum og reglugerð um Vaktstöð siglinga og á tilskipunin við um skip 500 brt og stærri. Öll ríki Evrópusambandsins (auk Noregs og Íslands) sem liggja að sjó eða reka kaupskip undir eigin fána, vinna að eða hafa lokið við að koma sér upp slíku kerfi. Kerfi allra landanna eru tengd miðlægum tilvísunargagnagrunni þannig að hægt er að sækja upplýsingar milli landa um ferðir og farm skipa.

Eðlilegt er að einhvern tíma taki að tileinka sér ný kerfi en sá hluti kerfisins hér á landi sem snýr að notandanum er á vefsíðu undir veffanginu  www.safeseanet.is. Þar geta skipsstjórnendur, útgerðaraðilar, umboðsmenn eða aðrir þeir sem senda upplýsingar fyrir hönd  skips sótt um aðgang að kerfinu. Ýtarlegan hjálpartexta (á ensku) er hægt að kalla fram við umsókn. Í vefviðmótinu hér á landi er hægt að koma að öllum þeim upplýsingum sem skip þarf að koma til yfirvalda við komu eða brottför. Þar á meðal eru upplýsingar um komu- og brottfaratíma, hættulegan farm, eigin olíu skips, farþega og áhafnalista, siglingaverndarupplýsingar o.fl. Á vefviðmótinu er hægt að sækja um aðgang og er aðgangur  persónutengdur. Vefsíðan opnast sem innskráningarsíða á vefinn fyrir þá sem hafa aðgangsorð. Þeir sem ekki hafa fengið aðgang er vísað neðst á síðuna en þar opnast umsóknarsíða fyrir aðgang. Henni fylgja leiðbeiningar um hvernig á að fylla út umsókn en auk þess er „bóluhjálp“ við hvern reit sem fylla þarf út. Þegar búið er að skrá sig inn í kerfið fæst aðgangur að ítarlegri handbók.

Skipstjórnendur, útgerðaraðilar og aðrir sem þurfa að senda inn tilkynningar eru hvattir til að kynna sér kerfið.  Ennfremur veitir Stjórnstöð LHG/Vaktstöð siglinga aðstoð við innskráningu ef óskað er.

Nánari upplýsingar um SafeSeaNet (ísl. Öryggisnet Sjávar) má finna í fréttabréfi Siglingastofnunar, Til sjávar.

Kortið er fengið af heimasíðu EMSA og sýnir útbreiðslu SafeSeaNet í Evrópu í október 2008.

SSN_Thatttokuthjodir_oct_08