Bráðaflokkunartöskur teknar í notkun

  • bradaflutntoskur

18. desember 2008

Dómsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið afhentu í vikunni bráðaflokkunartöskur til nota þegar slys ber að höndum. Um er að ræða nýtt kerfi til forgangsflokkunar sjúklinga á slysavettvangi og kemur það í stað eldra kerfis, sem í daglegu tali var kallað „almannavarnaspjöldin“.

Georg Kr. Lárusson tók við tösku fyrir hönd Landhelgisgæslunnar en einnig voru töskur afhentar fulltrúum sjúkraflutninga, lögreglu, slökkviliðs og björgunarsveita. Þessir aðilar munu varðveita töskurnar í farartækjum sínum og verða þær jafnframt á flugvöllum landsins og heilbrigðisstofnunum.

Við bráðaflokkun eru sjúklingar merktir rauðir, gulir eða grænir (einnig nefndir „forgangur 1, 2 eða 3“) eftir áverkum. Hver sjúklingur er merktur með litaspjaldi sem gefur til kynna forgangflokk hans fyrir flutning af slysstað til frekari þjónustu. Á spjaldinu er einnig raðnúmer og er það auðkenni sjúklings þar til hann hefur verið innritaður á sjúkrahús. Spjöldin er síðan einnig hægt að nota við áverkamat sem raðar sjúklingum með meiri nákvæmni í þrjá forgangshópa. Á spjöldin er auk þess hægt að skrá lágmarksupplýsingar um áverka og heilsufar.

Af www.almannavarnir.is

18.12.2008/HBS