Fækkun í útköllum Flugdeildar LHG milli ára

  • TF-EIR

Föstudagur 2. janúar 2009

Alls var 68 einstaklingum bjargað í þeim 150 útköllum sem bárust Flugdeild Landhelgisgæslunnar á árinu 2008. Útköllum fækkaði um 18% á milli ára en flest þeirra bárust í gegn um Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar en einnig frá Neyðarlínunni og Fjarskiptamiðstöð Lögreglunnar.

Frá árinu 2004 og fram til 2007 varð jöfn aukning í fjölda útkalla eða um 11% á ári. Mikil aukning varð síðan milli áranna 2006 og 2007 eða um 28%. Á árinu 2008 var fjöldi útkalla svipaður og árið 2006 eða alls 150. Af þeim voru alls 54 á láglendi, 57 í óbyggðir og 39 útköll á sjó, þar af 9 lengra út en 150 sjómílur.

Ekki kalla öll útköll á flutning fólks þar sem oft er um að ræða leitarflug eða annars konar aðstoð. Önnur verkefni flugdeildar á sl. ári voru þjóðvegaeftirlit og æfingar fyrir lögreglu, þjálfun fyrir Slysavarnaskóla sjómanna, uppsetning snjóflóðavarnargirðingar í Ólafsvík, ísbjarnarleitir, ýmiss farþegaflug með vísindamenn og önnur farþegaflug.

02.01.2008/HBS