BBC World fjallar um horfur á norðurslóðum

  • BBC_sigid

Þriðjudagur 24. febrúar 2009

BBC World sýndi mánudaginn 23. febrúar frétt og lengri þátt sem unninn var hér á landi um framtíðarhorfur á norðurslóðum. Efnið var unnið á meðan NATO ráðstefnan „Security Prospects in the High North“ stóð yfir í lok janúar.

Hér má sjá fréttina http://news.bbc.co.uk/2/hi/europe/7905132.stm

Brian Hanrahan og Simon Smith frá BBC heimsóttu Landhelgisgæsluna og fengu kynningu á starfsemi stjórnstöðvar og mikilvægi þeirrar eftirlits- og öryggisstarfsemi sem þar er sameinuð. Einnig fóru þeir í eftirlit með þyrlu LHG, TF-GNA um Vesturland auk þess sem æfðar voru hífingar með varðskipi LHG.

Þátturinn er mikilvægt skref í að vekja athygli á framtíðarhorfum Norður Atlantshafsins. Siglingar aukast jafnt og þétt á hafsvæði okkar, auka þarf samstarf og tryggja viðeigandi viðbúnað á svæðinu.

Landhelgisgæslan hefur í gegn um árin verið í miklu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar, Dani og Norðmenn og er hún eina stofnunin í landinu sem hefur tækjabúnað, reynslu og þekkingu til að vinna þau verk  sem tengjast öryggis-, löggæslu-, eftirliti og björgun á hafsvæðinu.

Georg Kr. Lárusson forstjóri LHG tók sl. haust við formennsku samtakanna North Atlantic Coast Guard Forum, sem eru samtök 20 þjóða sem eiga land að norður Atlantshafi. Samtökin verða með ráðstefnu hér á landi dagana 9.-12. mars nk. þar sem þessi mál, ásamt fleirum verða rædd.

Fyrirsjáanlegar eru auknar siglingar olíuskipa til og frá Barentshafi, gasflutninga frá Hammerfest, siglingar skemmtiferðaskipa og siglingar í nálægð við ís, um ókortlögð svæði og við erfiðar veðurfarslegar aðstæður.  Einnig aukast rannsóknir á austur Grænlandi og Drekasvæðinu  og líkur á olíuvinnslu og flutning á olíu af þessum veðurfarslega erfiðu svæðum.  Einnig má búast við siglingum stórra flutningaskipa vegna stóriðju á Íslandi sem og hugsanlegri aukningu á siglingum vegna minnkandi íss á heimskautinu. 

Með nýrri flugvél og varðskipi Landhelgisgæslunnar verðum við enn betur í stakk búin til að takast á við þau fjöldamörgu verkefni sem bíða  okkar handan við hornið.

Myndirnar tók Guðmundur St. Valdimarsson, bátsmaður

240209/HBS

BBC_thyrlan

TF-GNA yfirgefur svæðið eftir æfingu með varðskipinu Ægi