Árlegu björgunaræfingunni Bold Mercy lokið

Miðvikudagur 14. maí 2009

Alþjóðlega björgunaræfingin Bold Mercy fór fram í dag en æfingin er hluti af verkefni bandalagsþjóða NATO sem staðið hefur í mörg ár. Æfingin er einnig opin öðrum þjóðum í gegn um samstarfið „Partnership for Peace“. Að þessu sinni voru æfð viðbrögð við tveimur flugatvikum sem upp komu vegna eldgoss í Öskju.

BM-North_kort

Björgunarmiðstöðvar sem tóku þátt voru í RCC Syðri Straumsfirði og MRCC Grönnedal á Grænlandi, JRCC í Reykjavík, MRCC Þórshöfn í Færeyjum og RCC Bodö í Noregi.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tók þátt í æfingunni, einnig áhöfn TF-SÝN, eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar sem notaði fjarskiptatæki í stjórnstöðinni og líkti eftir flugvélinni í leitarflugi.  Að þessu sinni var æfingin skrifborðsæfing en þá er atburðarrás leikin,  þ.e. engar björgunareiningar eru sendar á staðinn eða slíkt. Hinsvegar eru fjarskipti og samskipti aðila eins raunveruleg og hægt er. Æfingin er skrifborðsæfing á þeim árum sem upp koma á oddatölu en raunveruleg (þ.e. með einingum á vettvangi) þau ár sem upp koma á sléttum tölum. Æfingin er skipulögð og framkvæmd eftir fyrirmælum í IAMSAR (International Search and Rescue Manual).

Tilgangur æfingarinnar er að þjálfa og bæta viðbrögð, samvinnu og samhæfingu við björgunarstörf á milli björgunarsvæða , eininga og stjórnstöðva nágrannaþjóða á Norður-Atlantshafi, bæði í lofti og á sjó (ARCC og MRCC). Um er að ræða þjóðir sem eru þátttakendur í NATO og hafa samliggjandi leitar- og björgunarsvæði.

Bold_Mercy_stjstod2009

Í Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar meðan á æfingunni stóð

Að sögn þátttakenda gekk æfingin vel en sem fyrr segir tóku stjórnstöð MRCC Reykjavík og hluti áhafnar TF-SYN þátt fyrir hönd Landhelgisgæslunnar og var henni stjórnað af Magnúsi Erni Einarssyni, stýrimanni og  Björgólfi H. Ingasyni, varðstjóra. Aðrir aðilar sem tóku þátt voru Flugleiðsögusvið Flugstoða/ISAVIA Rvk (Air traffic control), MRCC Torshavn, JRCC Bodö, færeysku varðskipin Brimill og Tjaldrið, norska varðskipið Nordkapp, Orion P3 frá Noregi, tvær norskar F16 þotur, tvær þyrlur frá Noregi og ein frá Færeyjum.

Bold_Mercy_ahofn1

Áhöfn TF-SYN "við leit".

Bold_Mercy_ahofn2

Líkan af TF-SYN í forgrunni

130509/HBS