Skjót björgun Herdísar SH-145 að þakka neyðarsendi

Miðvikudagur 20. maí 2009

Neyðarsendir á tíðninni 406 MHz varð til þess í nótt að skjótt var brugðist við og vel tókst til við að bjarga tveimur skipbrotsmönnum sem komust í gúmbjörgunarbát þegar bátur þeirra, Herdís SH-145 brann og sökk um 16,5 sjómílur NV- Bjargtöngum.

Ekkert neyðarkall barst frá bátnum, hvorki í sjálfvirka tilkynningakerfinu, í gegnum talstöð eða síma. Skipbrotsmennirnir náðu að ræsa neyðarsendi um borð í björgunarbátnum sem sendi frá sér Cospas-Sarsat neyðarskeyti á 406 MHz. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar brást við og sá nær samstundis staðsetningu neyðarskeytisins og hvaða bát það tilheyrði þar sem alþjóðlegt fjarskiptanúmer bátsins er skráð í sendinn og kom það fram í neyðarsendingunni. Kom það heim og saman við Herdísi SH-145 en stuttu áður höfðu merki í sjálfvirku tilkynningaskylduna hætt að berast og var báturinn því kominn fram yfir í tíma í vöktun stjórnstöðvar. Einnig bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar viðbrögð frá flugstjórn en flugvél í yfirflugi heyrði merki neyðarsendisins. Reynt var að kalla í bátinn en án árangurs. Var þá kallað út MAYDAY relay og svaraði línubáturinn Núpur BA-69 sem þá var um 7 sjómílur frá staðnum, sáu þeir reyk og neyðarblysi skotið á loft. Einnig lagði línubáturinn Birta BA-72 frá Patreksfirði af stað kl. kl 04:47  og var þá um 20 sjómílur frá staðnum.

Herdis_SH

Herdís SH-145 frá Rifi

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF var kölluð út kl. 04:45 og var hún komin í loftið frá Reykjavíkurflugvelli kl. 05:14. Línubáturinn Núpur BA-69 sá bátinn kl. kl. 05:05 og upplýstu þeir stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að tveir menn væru í gúmbátnum.  Voru skipbrotsmennirnir komnir um borð í Núp kl. 05:23, heilir á húfi. Var þá bátur þeirra, Herdís SH-145 brunnin niður að sjólínu og skipverjar á Núpi langt komnir með að slökkva í honum. Þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF var snúið við kl. 05:35. Birta BA-72  kom að Núpi og tók að sér að flytja mennina til Patreksfjarðar þar sem lögreglan tók á móti mönnunum og tekin var af þeim skýrsla.

Herdís SH-145 var 5,8 brúttótonna handfærabátur skráður á Rifi, Snæfellsnesi. Var báturinn 8,5 metrar að lengd.

Er þetta fyrsta atvikið síðan í ágúst 2008 að neyðarsendir og Cospas/Sarsat kerfið á slíkan afgerandi þátt í björgun skipbrotsmanna hér við land, auk upplýsinga úr sjálfvirka tilkynningakerfi skipa og þætti starfsmanna stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar/vaktstöðvar siglinga. Skylt er að hafa neyðarsenda á 406 MHz í björgunarbátum.

Landhelgisgæslan mælir eindregið með því að neyðarsendarnir séu búnir innbyggðu GPS staðsetningartæki þannig að nákvæm staðsetning neyðarskeytis berist björgunarmiðstöðvum. Verður því leitarsvæðið minna og líkur á að sá sem leitað er að, verði mun fyrr komið til bjargar. Staðsetningar GPS tækja eru eins og flestir vita mjög nákvæmar eða 60-100 metrar í radíus. Biðtími er innan sex mínútna frá ræsingu 406 MHz sendanna þar til stjórnstöð LHG fær upplýsingar og getur brugðist við þeim. Þann 1. febrúar sl. hætti Cospas-Sarsat gervihnattakerfið hlustun eftir neyðarsendingum á tíðninni 121,5 MHz sem komu frá gömlum neyðarsendum skipa, báta og smærri flugvéla. Aðeins ein af 50 neyðarsendingum á 121,5/243 MHz var raunverulegt neyðartilvik. Þetta hafði oft á tíðum í för með sér veruleg áhrif á vinnu leitar- og björgunarstöðva.

Ljósmynd: © Alfons Finnsson 2007

200509/HBS