Mikil ánægja með samvinnu Landhelgisgæslu Íslands og norsku strandgæslunnar

Mánudagur 8. júní 2009

Á sjómannadaginn var Georg Kr. Lárussyni forstjóra Landhelgisgæslu Íslands boðið í heimsókn um borð í norska varðskipið Harstad, systurskip varðskipsins Þórs, ásamt Rögnu Árnadóttur dóms- og kirkjumálaráðherra og Þórunni J. Hafstein settum ráðuneytisstjóra. Odvin Nilsen, skipherra Harstad tók á móti gestunum ásamt áhöfn sinni og snæddur var hádegisverður um borð.

Í erindi sem Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar flutti við tilefnið ræddi hann um samstarf Landhelgisgæslunnar og norsku strandgæslunnar og mikilvægi þess að starfsmenn vinni saman á grundvelli samstarfssamnings sem undirritaður var í október síðastliðnum, Að þjóðirnar að skiptist á upplýsingum og vinni sameiginlega að þjálfun á því víðfema hafsvæði sem N-Atlantshafið er.

Þakkaði Georg þá velvild sem Íslendingar hafa hlotið frá Norðmönnum við undirbúning og smíði nýja varðskipsins Þórs. Fékk skipherra Harstad afhentan skjöld með merki Landhelgisgæslunnar og mynd af varðskipunum Tý og Harstad við björgunaraðgerðir í Sandgerði síðastliðinn fimmtudag. Myndin var tekin úr lofti af Hauki Snorrasyni ljósmyndara.

Odvin Nilsen, skipherra Harstad afhenti Rögnu Árnadóttur dóms- og kirkjumálaráðherra og Georg Kr. Lárussyni forstjóra Landhelgisgæslu Íslands skildi með merki norsku strandgæslunnar sem þakklæti fyrir góðar viðtökur og árangursríkt samstarf meðan á dvöl þeirra hefur staðið. Heimsóknin hafi sýnt og sannað hve mikilvægt sé að strandgæslur og sjóherir vinni saman á þessum vettvangi og að Landhelgisgæslan sé ávallt að verða mikilvægari hlekkur í því samstarfi og verði enn frekar með komu Þórs á næsta ári.

Hann tók undir mikilvægi þess að efla samstarf þjóðanna, Norðmenn og Íslendingar séu þjóðir sem tengjast sterkum böndum og kom það greinilega í ljós við björgunaraðgerðir í Sandgerði og við björgunaræfingar sem haldnar voru á föstudag með þátttöku varðskips og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Fékk Landhelgisgæslan einnig að gjöf mynd af höfuðstöðvum varðskipsins Harstad sem staðsettar eru í Sortland í Norður Noregi.

Að lokinni heimsókninni var skipið opið fyrir almenning og voru fjölmargir sem lögðu leið sína í varðskipið Harstad á Sjómannadaginn. Talið er að um 800 manns hafi farið um borð til að líta hið glæsilega varðskip augum og létu þau sig hafa það að standa í biðröð góða stund í rigningunni áður en farið var um borð.

Heims_Harstad1

Þórunn J. Hafstein, ráðuneytisstjóri, Jöran Nöstvik, skipherra ásamt Rögnu Árnadóttur, dóms- og kirkjumálaráðherra um borð í norska varðskipinu Harstad á sjómannadaginn.

Heims_Harstad2

Georg Kr. Lárusson flytur ávarp um borð í Harstad á sjómannadaginn.

Heims_Harstad3

Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands afhendir Odvin Nilsen, skipherra Harstad að gjöf mynd Hauks Snorrasonar ljósmyndara af björgunaraðgerðum í Sandgerði

Heims_Harstad4

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands fæ afhentan skjöld
norsku strandgæslunnar frá Odvin Nilsen, skipherra Harstad.

Heims_Harstad5

Odvin Nilsen, skipherra Harstad afhendir Rögnu Árnadóttur, dóms- og kirkjumálaráðherra skjöld norsku strandgæslunnar

Harstad_bid_heimsokn

Fólk lét ekki rigninguna aftra sér frá því að standa í biðröð til að líta hið glæsilega varðskip augum. Talið er að um 800 manns hið minnsta hafi komið í heimsókn. Mikill áhugi á skipinu.

080609/HBS