Annríki í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar

Mánudagur 6. júlí 2009

Mikið annríki hefur að undanförnu verið hjá varðstjórum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar/vaktstöðvar siglinga. Eftir að strandveiðar hófust hafa 300-400 bátar í flota landsmanna bæst við þá umferð sem áður var afgreidd hjá stjórnstöðinni sem nú vaktar um 700 skip og báta daglega. Þegar við bætast útköll eða önnur aðstoð margfaldast álagið. Sem dæmi má nefna daginn í dag þar sem fjögur útköll bárust ofan á aðra starfsemi.

Um kl. 09:00 barst stjórnstöðinni tilkynning um reyk í vélarrúmi um borð í fiskibátnum Melavík sem var við strandveiðar um 7 sjómílur NV af Garðsskaga. Skipverji hafði slegið út öllu rafmagni og drepið á öllum tækjum um borð. Stjórnstöð hafði samband við nærstadda báta og var björgunarsveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum kölluð út. Fiskibáturinn Gola sem stödd var um 1 sml. norður af Melavík tilkynnti stjórnstöð stuttu síðar að engin reykur sjáist og bauðst hann til að draga bátinn til móts við Björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Hannes Þ. Hafstein sem lagði af stað frá Sandgerði kl. 09:46.  Var björgunarskipið komið með Melavík í tog kl. 10:31 og var þá siglt til Sandgerðis.

Stjornstod4

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Mynd úr myndasafni LHG

 

Um kl. 12:30 bárust síðan neyðarboð frá Eyfjörð ÞH-203  sem er 6 tonna bátur frá Grenivík. Björgunarsveitir á Sauðárkróki og Hofsósi auk þess sem nærstaddir bátar og Sigurvin, björgunarskips Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Siglufirði  voru fengnir til aðstoðar. Einnig sigldi varðskip Landhelgisgæslunnar á fullri ferð á staðinn. Komið hafði leki að bátnum og talið var líklegt að hann myndi sökkva. Nærstaddur bátur TONI var fyrstur á staðinn með dælur og tók hann Eyfjörð í tog. Komu bátarnir til hafnar á Hofsósi kl. 14:28.

Beiðni barst frá  Neyðarlínunni kl. 13:16, vegna slöngubáts í vandræðum undan Siglunesi. Björgunarskipinu Sigurvin var snúið tilbaka til að aðstoða slöngubátinn og var manninum bjargað um borð í björgunarskipið og slöngubáturinn tekinn í tog. Kl. 13:34 var björgunarskipið Sigurvin kominn til hafnar með manninn.  

Flugvélar í yfirflugi tilkynntu kl. 12:32 stjórnstöð að þær heyrðu í neyðarsendi yfir landinu. Tilkynningar sama efnis bárust frá þyrlu og eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, flugstjórnarmiðstöðinni, Varnarmálastofnun, dráttarskipinu Lóðsinum í Vestmannaeyjum, björgunarskipinu Oddi V. Gíslasyni í Grindavík og fleirum. Hafist var handa við að leita að staðsetningu neyðarmerkisins og kom skýringin um kl. 15:00. Kom þá í ljós að lítil flugvél hafði lent harkalega á flugvellinum í Kerlingafjöllum og hafði við það neyðarsendir vélarinnar hafið sendingu neyðarboða. Flaug flugvélin síðan á Reykjavíkurflugvöll og var þar mögulegt að staðsetja upptök neyðarkallsins.

060709/HBS