Neyðarboð bárust frá Bandaríkjunum - konur fundust á eyri í Köldukvísl

Þriðjudagur 7. júlí 2009

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 13:52 upphringing frá svokallaðri „spot“ neyðarþjónustu í Bandaríkjunum sem tilkynnti að þeim hefði borist neyðarboð úr sendi viðskiptavinar þeirra sem staddur er á Íslandi.

Neyðarboðin bárust frá Hágönguhrauni sunnan Köldukvíslar kl. 13:40 að íslenskum tíma. Um var að ræða tvær konur 32 ára gamlar sem síðast voru í sambandi við ættingja sína fyrir 4 dögum síðan. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út auk björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem voru með menn í 10 kílómetra loftlínu frá svæðinu. Samkvæmt starfsmanni Slysavarnarfélagsins Landsbjargar er erfitt er að setja „spot sendi í gang af slysni og voru því neyðarboðin strax tekin alvarlega. Höfðu konurnar lagt inn upplýsingar um sig og ferðir sínar til Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Björgunarsveitarbifreið í Hálendiseftirliti kom að konunum þegar þyrlan var við það að fara í loftið kl. 15:44. Voru konurnar fastar á eyri í Köldukvísl. Voru þær ómeiddar en treystu sér ekki út í ána og höfðu sett niður tjald á staðnum.

070709/HBS