Brýn þörf á eftirliti varðskipanna

Föstudagur 10. júlí 2009

Varðskipið Ægir kom nýverið til hafnar í Reykjavík eftir að hafa verið við eftirlit-, öryggis- og löggæslu á Íslandsmiðum. Í tveimur síðustu ferðum hefur áhöfn varðskipsins alls farið til eftirlits um borð í 54 skip og báta. Við eftirlit eru könnuð réttindi áhafna, haffærisskírteini og önnur leyfi. Einnig er farið yfir veiðarfæri, afli mældur og gengið úr skugga um að björgunar- og öryggisbúnaður sé í lagi svo eitthvað sé nefnt.

Eftirlit varðskipsins leiddi til þess að gefa þurfti út ellefu kærur og sautján áminningar. Einnig voru gefnar út átta skyndilokanir í samráði við vakthafandi fiskifræðing Hafrannsóknastofnunar.   Fimm af þeim kærum sem gefnar voru út voru vegna réttindaleysis skipstjóra einnig var nokkuð um að  haffærnisskírteini væri útrunnið og vöntun á réttindamönnum. Áminningar voru gefnar þegar skírteini eða skipsskjöl vantaði um borð, veitt var með rangri möskvastærð eða afli mældist undir máli. Farið var til eftirlits með skemmtibátum á innanverðum Breiðafirði. Var það í samvinnu við lögregluna á Snæfellsnesi sem einnig athugaði notkun áfengis um borð í bátunum og komu engin mál upp vegna þess.

Dæmi þessi sýna nauðsyn þess að sinna öflugu eftirliti á fiskimiðunum við Ísland, aðgerða var þörf í ¾ tilfella þeirra báta sem farið var til eftirlits í.

Einnig kom upp verkefni tengt leit og björgun þegar báturinn EYFJÖRÐ ÞH-203 kallaði á vaktstöð siglinga og óskaði eftir aðstoð vegna leka í vélarúmi bátsins sem var þá staddur á Skagafirði rétt norður af Drangey. Var varðskipið þá við eftirlitsstörf utan við Skagaströnd, hélt það þegar áleiðis til aðstoðar og hraðbátur varðskipsins sendur á undan af stað með dælur.  Um einni og hálfri klst. síðar var aðstoð varðskipsins afþökkuð þar sem tekist hafði að ná tökum á lekanum og hætta var liðin hjá. Nærstaddur bátur, TONI var komin með EYFJÖRÐ í tog  og ekkert amaði að skipverjanum sem var einn um borð.

Einnig var skipt um öldumælisdufl utan við Drangsnes á Húnflóa og fjölmargar æfingar voru haldnar um borð með þ.á.m. með þyrlum  Landhelgisgæslunnar.

Myndir_vardskipstur_004

Við eftirlitsstörf

Mynd Árni Sæberg

100709/HBS