Létt andrúmsloft á upplýsandi starfsmannafundi

Föstudagur 18. September 2009

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar komu í dag saman í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli þar sem farið var yfir rekstrarstöðu Landhelgisgæslunnar og það sem framundan er á næstu misserum.

Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar fór yfir atburði sl. mánaða en eins og öllum er ljóst hefur starfsemi Landhelgisgæslunnar skerst allverulega vegna óhjákvæmilegs niðurskurðar á þessu ári. Gengismál setja enn sem fyrr strik í reikninginn og nú hefur ríkisstjórnin boðað ýmsar aðgerðir í kjaramálum sem snerta Landhelgisgæsluna líkt og allar aðrar stofnanir. Allur niðurskurður, hvar svo sem hann kemur niður, hefur áhrif á starfsemina og þá þjónustu sem Landhelgisgæslan getur veitt. Hvað sem öllum niðurskurði, svartsýni og böli líði þá sé það einfaldlega þannig að Landhelgisgæslan stæði ekki jafn vel og hún gerir, nema vegna faglegrar og yfirvegaðrar aðkomu starfsmanna að öllum verkefnum og ómældum metnaði sem þeir leggja í störf sín. Nýlegar tölur undirstrika greinilega nauðsyn Landhelgisgæslunnar sem hefur á sl. 15 árum bjargað 1344 einstaklingum á sjó og landi.
Fundur_yfir

Starfsmannafundurinn var vel sóttur, Georg fer yfir stöðu mála

Þrátt fyrir væntanlegan niðurskurð og þann sem nú þegar hefur orðið er fyllsta ástæða til bjartsýni og dómsmálaráðherra hefur leitað eftir þverpólitískri samvinnu um málefni Landhelgisgæslunnar. Í fyrsta skipti er sett á fót nefnd sem skipuð er fulltrúum stjórnar og stjórnarandstöðu ásamt embættismönnum úr dómsmálaráðuneyti og frá Landhelgisgæslunni til að fjalla um málefni Landhelgisgæslunnar. Nefndinni er ætlað að horfa til verkefna Landhelgisgæslunnar, landhelgisgæsluáætlunar og annarra stefnumótunar og ákvarða hvernig málum sé best háttað í nútíð og framtíð í ljósi óhjákvæmilegra aðhaldsaðgerða.  Georg sagði að með þessu sé stigið gríðarmerkilegt skref sem segir okkur að mikilvægi Landhelgisgæslunnar er síst minna nú en áður. 

Fundur_Starfsm_1

Sólmundur Már Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs útskýrði helstu rekstrartölur en um mitt sumar lá fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um 2% niðurskurð á fjárveitingum til Landhelgisgæslunnar fyrir þetta ár sem nemur tæpum 50 m.kr.  Vegna þeirra aðhaldsaðgerða sem nú þegar hefur verið ráðist í með fækkun úthaldsdaga varðskipa um 36% og fækkun flugtíma um 25% auk ýmissa annarra liða, lítur út fyrir að ekki þurfi að grípa til frekari aðgerða á árinu 2009, að því gefnu að engir óvissuþættir snúi hlutunum við.  Nú er orðið ljóst að fjárveiting til Landhelgisgæslunnar fyrir árið 2010 mun verða skorin niður um 10% frá því sem nú er og krefst sá samdráttur þess að gripið verði til aðgerða með einhverjum hætti.  Ekki liggur fyrir nú hverjar þær aðgerðir verða en góð samvinna er milli Landhelgisgæslunnar og dómsmálaráðuneytis um þau mál. 

Fundur_yfir2

 Auðunn F. Kristinsson yfirstýrimaður sagði frá framvindu mála við þjálfun og notkun á TF-SIF eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar auk þess sem Ingvar J. Kristjánsson yfirmaður skipatæknisviðs sagði frá gangi mála með smíði varðskipsins Þórs í Chile.

Að framögn lokinni var starfsmönnum boðið að koma með fyrirspurnir.  Var greinilegt að létt var yfir mannskapnum og allir ánægðir með upplýsingagjöf um stöðu mála og það sem framundan er innan starfseminnar. Eins og kom fram í máli Guðmundar St. Valdimarssonar bátsmanns á varðskipinu Ægi þá var starfsmannafundurinn kærkominn og nauðsynlegt í árferði sem því sem við lifum í að segja einnig frá því að ekkert sé að frétta,  það eyðir óvissu og getgátum sem geta skapast.

Fundur_VS_folk
Björn Haukur Pálsson, yfirstýrimaður, Sólveig Helga Hjaltadóttir, háseti,
Gunnar Páll Baldursson stýrimaður og Einar Valsson, skipherra.

Svanhildur Sverrisdóttir starfsmannastjóri stýrði fundinum af myndarskap og kynnti að loknum umræðum sameiginlegt skipulags- og umgengnisátak starfsmanna í að halda vinnustaðnum hreinum og snyrtilegum. Skipuð hefur verið nefnd valinkunnra snyrtipinna sem koma munu með tillögur að úrbótum en tekið var fram að þau munu þau þó ekki sjá um tiltektina, það verða starfsmenn sjálfir að gera en eins og allir vita þá sjá betur augu en auga.

Fundur_Gunni_Grjoni1
Sjöfn Axelsdóttir, sjókortagerðarmaður, Dagmar Sigurðardóttir, lögfræðingur,
Gunnar Thomas Guðnason, lager- og innkaupastjóri og
Sigurjón Sigurgeirsson, flugvirki.

Að loknum fundinum hófu grillmeistarar Landhelgisgæslunnar grilltangirnar á loft og grilluðu af stakri snilli sinni gómsæta borgara fyrir starfsmenn.

Fundur_flugvirkjar_kerra
Krílin sváfu vært undir vökulu augnaráði starfsmanna flugdeildar.

Fundur_Georg_Georgsdottir
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar með tveggja mánaða
Georgsdóttir, já það er talsverður svipur.

Fundur_Grillmeistarar
Grillmeistararnir Hólmar Logi Sigmundsson, fulltrúi flugrekstrardeild,
Sólmundur Már Jónsson, framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs og
Höskuldur Ólafsson, tæknistjóri munduðu grilltangirnar af snilld.

Fundur_RafnSigurgson_HeimirTyr_VS
Rafn S. Sigurðsson, háseti og Heimir Týr Svavarsson, smyrjari.

180909/HBS