Flutningaskip staðið að því að þjónusta sjóræningjaskipið Carmen

Föstudagur 9. júní 2006.
 
Áhöfn eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar, Synjar, stóð flutningaskip að því að þjónusta sjóræningjaskipið Carmen í eftirlitsflugi yfir úthafskarfamiðin á Reykjaneshrygg í dag. Þetta mun væntanlega valda því að flutningaskipið, sem heitir Polestar og er skráð í Panama sem frystiskip, fer á svarta lista NEAFC (Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins).
 
Er Syn flaug yfir skipin voru þau stödd 480 sjómílur frá Reykjavík eða 190 sjómílur frá mörkum efnahagslögsögu Íslands þar sem yfir 50 erlend skip eru að veiðum.  Þar sem Ísland er aðili að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðinu tekur Landhelgisgæslan þátt í eftirliti með fiskveiðum á svæðinu.  Greinilegt er að skipin reyna að athafna sig eins fjarri lögsögumörkum og hægt er til að verða síður staðin að verki.
 
Áhöfnin á Syn tilkynnti skipstjóra Polestar að ef það þjónustaði skip sem væri að veiðum án kvóta á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins, færi það á svartan lista ráðsins og það hefði alvarlegar afleiðingar fyrir skipið og útgerð þess.  Skipstjórinn sagðist eingöngu vera að láta skipið hafa umbúðir.  Á þessari stundu er ekki ljóst hvort Polestar var að taka við afla frá Carmen eins og áhöfn Synjar grunaði en samkvæmt reglunum má ekki veita sjóræningjaskipum neina þjónustu, þar með talið að útvega því umbúðir.

Polestar er 120 metra langt og 4574 brúttótonn að stærð og er skráð sem frystiskip. Skýrsla um málið verður send frá Landhelgisgæslunni til sjávarútvegsráðuneytisins sem kemur upplýsingunum á framfæri við aðalskrifstofu Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins í London. Þar verður síðan tekin ákvörðun um framhaldið.

Annað sjóræningjaskip, Dolphin, lónaði mitt á milli úthafskarfaveiðiflotans og Polestar.

Meðfylgjandi myndir tók Hafsteinn Heiðarsson flugmaður á Syn eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.

Halldór Benóný Nellett
framkvæmdastjóri aðgerðasviðs


Flutningaskipið Polestar er stærra skipið. Sjóræningjaskipið Carmen er bláa skipið í forgrunni.


Öflug fríholt utan á flutningaskipinu sem koma í veg fyrir að skipin sláist saman í úthafsöldunni




Carmen (minna skipið) hefur fært stjórnborðshlerann svo að hann valdi ekki skemmdum á flutningaskipinu þegar skipin liggja saman.