Svar við gagnrýni vegna skipulagningu björgunaraðgerða á Hvannadalshnjúki

Fimmtudagur 1. júní 2006.

Í Kastljósþætti í gær var rætt við Júlíus Guðmundsson formann björgunarsveitar Hafnarfjarðar. Í kynningu á viðtali við hann var sagt að hann gerði athugasemdir við aðgerðir Landhelgisgæslunnar þegar slys varð á Hvannadalshnjúk um síðustu helgi. Í kynningu á viðtalinu var sagt að enginn björgunarsveitarmaður hafi verið með þyrlunni þrátt fyrir að björgunarsveitirnar hafi um árabil reynt að koma á samstarfi við Landhelgisgæsluna. 


Vegna þessa vill Landhelgisgæslan koma því á framfæri að hún hefur áhuga á að starfa eins náið með björgunarsveitum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar eins og kostur er. Allt það óeigingjarna starf sem þau samtök hafa innt af hendi í áratugi er virðingarvert.  Einnig hafa samtökin átt stóran þátt í að byggja upp Landhelgisgæsluna í gegnum tíðina.

 

Í því tilfelli sem hér um ræðir var ekki hægt að bjóða björgunarsveitarmönnum frá Reykjavík að fara með þyrlunni. Hámarksflugtaksþyngd vélarinnar er 8600 kg. Þyngd vélarinnar í þessu tilfelli við flugtak í Reykjavík var 8547 kg. og því einungis 53 kg. uppá að hlaupa.  Það var því ekki með nokkru móti hægt að taka björgunarsveitarmenn með í þyrluna.

Þegar starfsmenn Landhelgisgæslunnar komu út á flugvöll var byrjað á að taka sjúkrastellið svokallaða úr þyrlunni til að létta hana en það vegur 124 kg.  Jafnframt var bætt við 400 kg. af eldsneyti þar sem fyrir lá að um 30 mínútna flug var til Hornafjarðar til eldsneytistöku frá slysstað og 50 mínútur til Vestmannaeyja. Tilgangurinn með þessu var einnig að geta verið lengur á slysstað vegna óvæntra uppákoma eins of oft vill verða og kom á daginn í þessu tilfelli.

 

Vandinn sem þyrluáhöfnin stóð frammi fyrir með þessa aukaeldsneytisþyngd var hvort að þyrlan væri of þung og hefði afköst til að geta farið beint í hangflug er komið var á staðinn í þessari hæð þ.e. yfir 7000 fetum en snjóflóðið féll á mennina er þeir voru í um 2000 metra hæð í hlíðum Hvannadalshnjúks.  Hafa ber í huga að hér er ekki hægt að bera saman önnur björgunarflug því þyrlan er hlaðin í hvert sinn miðað við það verkefni sem fyrir liggur hverju sinni.

 

Slysavarnarfélagið Landsbjörg og fleiri björgunaraðilar, sem sýnt hafa áhuga á að senda fólk með þyrlunni, verða að treysta því að fagmenn sem í áhöfninni eru, hafi vit og þekkingu á því sem þeir eru að gera.  Oft og tíðum er ekki hægt að ákveða fyrirfram hvaða búnað og mannskap er heppilegast að hafa með í útkall þyrlu.  T.d. þegar fólks er saknað.  Stundum er ekki vitað hvort slys hafa orðið á fólki, hvort þörf er á sérstökum tækjum t.d. klippum til að losa fólk úr bifreiðum og fl.  Í áhöfn þyrlunnar eru flugstjóri, flugmaður, flugvirki/spilmaður, stýrimaður/sigmaður og læknir.  Þetta er hluti af björgunarsveit Landhelgisgæslunnar og því ekki hægt að segja að enginn björgunarsveitarmaður hafi verið með í för.

 

Landhelgisgæslan og Slysavarnarfélagið Landsbjörg hafa rætt um mögulega samningsgerð varðandi framangreind mál og fleiri aðilar hafa sýnt slíkum samningum áhuga.  Slysavarnarfélagið Landsbjörg og Landhelgisgæslan eru þegar með samstarfssamning um margvíslega þætti starfseminnar sem eru sameiginlegir.  Það er af hinu góða.  Vandinn sem Landhelgisgæslan stendur frammi fyrir er að vafasamt er fyrirfram að binda í samninga hverjir fara með þyrlu í verkefni því þau geta verið margslungin og breytileg og þau þarf að skipuleggja miðað við aðstæður hverju sinni.  

Að lokum skal þess getið að öllum aðgerðum var stjórnað af Samhæfingarstöðinni í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð en þar voru fulltrúar Landhelgisgæslunnar, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Ríkislögreglustjóra og Neyðarlínunnar.  Þessir aðilar komu sér saman um að þessi háttur yrði hafður á varðandi björgunaraðgerðir.

Fréttatilkynning frá Landhelgisgæslunni.