Gylfi Geirsson kosinn formaður PECCOE

Fimmtudagur 6. maí 2010

Á aðalfundi PECCOE, Permanent Committee on Control and Enforcements í síðastliðinni viku var Gylfi Geirsson, forstöðumaður hjá Landhelgisgæslunni kosinn formaður nefndarinnar. Gylfi tekur við formennsku af Martin Newman frá Evrópusambandinu sem hefur gegnt starfinu undanfarin ár. Á sama tíma var Jacques Verborgh frá Evrópusambandinu kosinn varaformaður.

 PECCOE er fiskveiðistjórnunar og eftirlitsnefnd Norður Atlantshafs fiskveiðnefndarinnar-NEAFC. Hlutverk nefndarinnar er að m.a. að veita NEAFC tæknilega ráðgjöf og upplýsingar varðandi fiskveiðieftirlit aðildarþjóða sem og veiðar annarra þjóða á alþjóðlegum hafsvæðum. Einnig fylgir nefndin eftir brotamálum sem komið hafa upp á alþjóðlegum hafsvæðum auk þess að meta hvort skip séu sett á svokallaða IUU lista eða hvort skip skulu tekinn af listanum.  Nefndinni ætlað að standa fyrir miðlun upplýsinga til aðildarþjóða varðandi nýjar reglugerðir, mælingar og fleira.

GylfiNACGF

Gylfi Geirsson, ásamt Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar og
Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra á aðalfundi North Atlantic Coast Guard
Forum síðastliðið haust.

Mun Gylfi gegna embætti formannsins í umboði sjávar- og landbúnaðarráðuneytisins en hann hefur sótt fundi í samtökunum NEAFC og NAFO (Northwest Atlantic Fisheries Organization) í nánu samstarfi við ráðuneytið, síðastliðin 15 ár. Þekkir hann mál og þróun nefndarinnar því afar vel. Gylfi er sem stendur einnig formaður tækninefndar NEAFC sem kallast “AGDC” en hann mun láta af formennsku nefndarinnar á fundi sem haldinn verður í október.  Hann er einnig formaður Fisheries Enforcment Working Group innan North Atlantic Coast Guard Forum.

 Gylfi hefur starfað hjá Landhelgisgæslunni í 39 ár eða frá árinu 1971. Hann hóf störf sem loftskeytamaður á varðskipunum og hefur síðan starfað hjá flestum deildum innan Landhelgisgæslunnar. Gylfi starfaði sem sprengjusérfræðingur og jafnfram yfirmaður sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar frá 1982 til 2005.  Einnig starfaði hann um árabil sem tengiliður Landhelgisgæslunnar hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Síðastliðin ár hefur Gylfi að mestu sinnt erlendu samstarfi, var verkefnisstjóri vegna formennsku Georgs Kr. Lárusson forstjóra Landhelgisgæslunnar í North Atlantic Coast Guard Forum, einnig var hann um tíma staðsettur í Róm þar sem hann sinnti starfi sérfræðings FAO á sviði fjareftirlitskerfa og fiskveiðistjórnunarkerfa.