Æfingin Bold Mercy fór fram við Færeyjar. Unnið að tveimur björgunaraðgerðum samtímis

Miðvikudagur 12. maí 2010

Alþjóðlega björgunaræfingin Bold Mercy fór fram í gær í grennd við Færeyjar en æfingin er hluti af verkefni bandalagsþjóða NATO sem staðið hefur í mörg ár, sem fram fer á milli björgunarmiðstöðva á Norður Atlantshafi. Æfingin er einnig opin öðrum þjóðum í gegn um samstarfið „Partnership for Peace“. Annað hvert ár er haldin svokölluð skrifborðsæfing þar sem viðbrögð og atburðir eru leiknir en hin árin eru settar upp æfingar þar sem unnið er með raunveruleg björgunartæki og reynt er að hafa verkefnin eins lík raunveruleikanum og hægt er, var svo reyndin í ár.

Að þessu sinni tóku stjórnstöð og flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF þátt í æfingunni. Fór TF-SIF í venjubundið flug yfir gosstöðvarnar á Eyjafjallajökli en var samstundis kölluð úr fluginu og beint til Færeyja þegar aðstoðarbeiðnin barst Landhelgisgæslunni.

Handrit æfingarinnar samanstóð af tveimur aðskildum atvikum sem gerðust á svipuðum tíma innan færeyska björgunarsvæðisins. Stjórnun björgunaraðgerða því í umsjón björgunarmiðstöðvarinnar í Færeyjum, MRCC Thorshavn www. http://www.mrcc.fo/ .

Hófst æfingin á að kl.  07.56 barst neyðarkall frá togara sem var við það að sökkva eftir að kafbátur lenti í veiðarfærum hans.  Voru þá kallaðar til allar tiltækar björgunareiningar, þ.á.m. flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF. Nokkru síðar eða kl. 09:13 barst annað neyðarkall frá skemmtiferðaskipi sem hafði siglt á skútu sem sökk við áreksturinn. Reyndi á björgunarmiðstöðina í Færeyjum að skipta upp björgunareiningum og stjórna tveimur aðgerðum samtímis.

BM-North_kort
Björgunarsvæðin sem taka þátt í æfingunni

Að sögn áhafnar TF-SIF og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar gekk æfingin ágætlega.  Stóð flugið yfir í rúmlega 6 tíma og fór stór hluti þess fram í lágflugi sem reynir mikið á mannskap og tæki. Fann TF-SIF  einn „mann” í sjónum.  Níu dúkkur af ellefu sem notaðar voru í æfingunni fundust, flestar af þyrlu færeysku björgunarþjónustunnar.

Tilgangur æfingar sem „Bold Mercy“  er að þjálfa og bæta viðbrögð, samvinnu og samhæfingu við björgunarstörf á milli björgunarsvæða , eininga og stjórnstöðva nágrannaþjóða á Norður-Atlantshafi, bæði í lofti og á sjó (ARCC og MRCC). Um er að ræða þjóðir sem eru þátttakendur í NATO og hafa samliggjandi leitar- og björgunarsvæði.

Þátttakendur í æfingunni voru;

Ísland
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.
TF-SIF, eftirlits- og björgunarflugvél  Landhelgisgæslunnar.
ISAVIA/Flugstjórnarmiðstöðin.

Færeyjar
MRCC /Sjóbjörgunarmiðstöðin í Þórshöfn.
Þyrlubjörgunarþjónustan
Atlantic Helecopters.
Færeysku eftirlitsskipin Brimil og Tjaldrið.

Danmörk
Danska eftirlitsskipið Vædderen.

Frakkland
Franska eftirlitsskipið Flamant.

Noregur
Björgunarmiðstöðin JRCC Bodø.

BoldMercy2010