Fréttir af smíði varðskipsins Þórs í Chile

  • Thor02_A_sjo

26. maí 2010

Frá Unnþóri Torfasyni, yfirvélstjóra Landhelgisgæslunnar sem staðsettur er í Chile.

Þann 27. febrúar síðastliðinn varð jarðskjálfti upp á 8,8 stig Richter í Chile. Miklar skemmdir urðu á skipasmíðastöðinni ASMAR í Talchuano þar sem nýtt varðskip Landhelgisgæslunnar, Þór er í smíðum en áætlað var að afhenda fullbúið í apríl.

VK-1270210-0903
Skemmdir á skipasmíðastöðinni urðu aðallega eftir flóðbylgju sem reið yfir svæðið eftir skjálftann. Hægt er að áætla að öll rafknúin verkfæri sem skipasmíðastöðin átti hafi eyðilagst. Skrifstofan Landhelgisgæslunnar innan svæðisins eyðilagðist einnig, var það mikið tjón en starfsmenn höfðu komið sér upp góðum banka upplýsinga sem glataðist.

Þrátt fyrir allt sem fór úrskeiðis við skjálftann kom eftirlitsmönnum Landhelgisgæslunnar ánægjulega á óvart hversu litlar skemmdir komu í ljós við skoðun á skrokk Þórs en hann var í „dock“ frá 5. til 9 apríl síðastliðinn.

ThorIMG_0689
Bogið slyngubretti

Engar sjáanlegar skemmdir komu í ljós bakborðsmegin en hinsvegar voru lítilsháttar skemmdir stjórnborðs, sem dæmi bogið slyngubretti sjá mynd. En það vildi svo til að gámur flaut undir skipið. Þór sat í raun á gámnum, kom það í veg fyrir að hann hallaði meira en þessum 30° nam, annars hefði hann farið nánast alveg á hliðina í „dockinni“ og örugglega skemmst meira við það að leggast á vegginn. Ekki stóð til að Þór ætti að vera „dock“ þessa daga sem skjálftinn reið yfir en með skömmum fyrirvara var ákveðið að setja skipið í slipp tveimur vikum fyrr en áætlað var.

Dock

Hefði Þór verið bundinn við bryggju, væri nánast öruggt að skipið hefði tapast alveg, flotið upp í land eða upp á bryggju eins og flotkvíin hér að ofan. Tilviljanir réðu því að skipið var á besta mögulega stað innan stöðvarinnar.

ThorIMG_0690

Hér að ofan má sjá einu dældina sem fannst á skrokknum sjálfum í skoðunni en þessi dæld er inní tank 9 sem er eldsneytistankur stjórnborðsmegin og þar með ómálaður að innan. Viðgerð er einföld í framkvæmd.

Tvö önnur tjón komu í ljós við skoðun. Hlíf yfir utanborðskæli er ónýt einnig flaut trékubbur upp í einn „boxykælinn“ sem beygði 8 rör sem er hægt að rétta aftur. Sjá f. neðan.

ThorIMG_0688
Hlíf yfir utanborðskæli

ThorIMG_0687
Rör í „boxykæli"

Ennþá er unnið að mati á skemmdum um borð en á fyrsta dekki, þar sem kallað er „tank toppur“ flaut sjór inn og yfir dælur og rafmótora og miðast afhending núna á skipinu aðallega á afgreiðslutímanum á þeim hlutum sem mun reynast nauðsynlegt að endurnýja.