Fjögur útköll á fimmtán tímum

Miðvikudagur 18. ágúst 2010

Þyrla Landhelgisgæslunnar var fjórum sinnum kölluð út á tímabilinu frá kl. 19:00 frá sl. mánudagkvöldið til kl. 14:00 þriðjudag. Tvö af útköllunum komu nánast samtímis að kvöldi mánudags.

TF-Líf sótti snemma að kvöldi mánudags veikan sjómann um borð í norskan togara sem staddur var um 175 sjómílur norðvestur af Reykjavík. Á meðan þyrlan var í útkallinu bárust tvær aðrar aðstoðarbeiðnir í gegnum Neyðarlínuna með stuttu millibili. Annað tilfellið var vegna alvarlegra veikinda í Öræfum en hitt vegna manns sem slasaðist við höfnina í Grímsey. Fjórða þyrluútkallið var svo vegna konu sem slasaðist við hellaskoðun við Miklafell í Eldhrauni um hádegisbilið í gær.

Fimm menn eru á sólarhringsvakt þyrlunnar hverju sinni. Þegar TF-LÍF lenti í Reykjavík kl. 07:00 á mánudagsmorgun, eftir þriðja útkallið, var nauðsynlegt fyrir áhöfnina að fara í 12 tíma hvíld. Þegar fjórða útkallið barst kl. 11:15 var kölluð út þyrluáhöfn af bakvakt, en reyndar þurfti að kalla til mann úr sumarfríi til að fullmanna þyrluna.