Óvenju há sjávarstaða

Mánudagur 6. september 2010

Landhelgisgæsla Íslands vekur athygli á að óvenju hárri sjávarstöðu er spáð 8. til 11. september. Sjávarhæð á síðdegisflóðinu í Reykjavík 8. og 9. september verður allt að 4,5 m, samkvæmt sjávarfallatöflum sem sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar reiknar og gefur út.

Sjávarhæð á meðalstórstraumsflóði í Reykjavík er 4,0 m. Á Ísafirði er spáð 2,5 m sjávarhæð á kvöldflóði 8. og 9. september og á Siglufirði er spáð 1,5 m sjávarhæð þessa sömu daga. Á Djúpavogi er spáð að hæðin verði 2,5 m 9. og 10. september. Meðalstórstraumsflóð á Ísafirði og Djúpavogi er 2,2m en á Siglufirði er það 1,3 m. Í Reykjavík og á Ísafirði getur sjávarhæð á fjöru farið 10 til 20 sentimetra niður fyrir núll-við miðun sjómælinga þessa daga.

Útreikningur sjávarfallataflna miðast við meðalloftþrýsting sem er 1013 millibör. Lægri loftþrýsingur veldur hærri sjávarstöðu, u.þ.b. 10 sm fyrir hver 10 millibör.

Umsjónarmenn báta og skipa eru beðnir um að fylgjast vel með veðri þessa daga.