Sprengjusveit LHG eyðir tundurduflum á Héraðssandi

  • Sprenging

Fimmtudagur 3. febrúar 2011

Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar eyddi í vikunni tveimur tundurduflum sem fundust á Héraðssandi um helgina. Tilkynning um fjögur dufl barst til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar, í kjölfarið voru sendar myndir sem sprengjusérfræðingar greindu sem tundurdufl frá seinni heimsstyrjöldinni, með hugsanlegri  sprengjuhleðslu.

Þegar komið var á staðinn reyndust tvö duflin vera tóm en sprengiefni  í hinum tveimur; um hundrað kíló í öðru og um fimmtíu kíló í hinu. Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður sprengjusveitarinnar, segir að greinilegt sé að áður hafi verið reynt að eyða duflunum. Á árum áður voru bændur þjálfaðir í að eyða tundurduflum, var þeim kennt að brenna sprengiefnið úr þeim. Ekki tókst það alltaf sem skyldi og leynist því oft talsvert af sprengiefni í gömlum duflum. Tundurdufl varðveitast vel í sandinum ef þau er alveg grafin niður, síðan breytist sandurinn og þá geta duflin skyndilega horfið. Er því mikilvægt fyrir sprengjusérfræðinga að vera fljótir á vettvang eftir að tilkynning berst til 112 sem gefur samband áfram til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar.

Landhelgisgæslan hefur gert um 5000 tundurdufl óvirk af þeim rúmlega 100 þúsund sem Bretar lögðu úti fyrir Austfjörðum í seinni heimstyrjöldinni. Áttu duflin að að loka siglingaleið þýskra kafbáta út á Atlantshafið.

Er duflum eytt með dínamíti og plastsprengiefni og var hvellurinn mikill eins og sjá má í myndbandi.

 dufl
Tundurduflið var grafið í sandinn

Marvi-skodar-dufl
Sprengjusérfræðingur undirbýr eyðingu

Tib-til-eydingar

Sprenging
Duflinu eytt. Rúnar Ingi Hjartarson leiðsögumaður tók myndina

Sprengjubrot
Brot af tundurduflinu að lokinni eyðingu.

Marvin-Runar-leidsogum-Runar-RUV
Marvin Ingólfsson, sprengjusérfræðingur, Rúnarar tveir;
Rúnar Ingi Hjartarson, leiðsögumaður og Rúnar Snær Reynisson,
fréttamaður á RUV.