Náðu að senda neyðarkall skömmu áður en báturinn sökk

  • 1882.-Abbaa-SH-82

Laugardagur 26. mars 2011

Ekki mátti miklu muna síðdegis í dag þegar bátur sökk skyndilega norðan við Akurey, á Sundunum við Reykjavík. Áhöfn bátsins náði til talstöðvar og sendi neyðarkall á rás 16 kl. 17:06 eða rétt áður en báturinn sökk. Skipti það sköpum um björguna mannanna.

Varðstjórar Landhelgisgæslunnar í vaktstöð siglinga heyrðu kallið og ræstu samstundis út allar tiltækar björgunareiningar, þ.e. þyrlu Landhelgisgæslunnar, björgunarskip og báta Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, aðra báta á svæðinu svo og hafnsögubátinn í Reykjavík.

Halla Jónsdóttir, björgunarbátur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Seltjarnarnesi var fyrstur á staðinn kl. 17:33 og náði mönnunum tveimur um borð. Maraði báturinn þá í hálfu kafi og aðeins stefnið stóð uppúr.  Sigldi annar mannanna, sem var mjög kaldur, með björgunarskipinu Gróu P. til Reykjavíkur og var hann kominn í sjúkrabíl kl. 17:44.  Kl. 17:52 staðfesti Ásgrímur S. Björnsson, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar að báturinn væri sokkinn.Ljóst virðist að neyðarkall um talstöð skipti sköpum um björgun mannanna.