Vélarvana bát komið til aðstoðar

Mánudagur 28. mars 2011

Landhelgisgæslunni barst kl. 12:09 aðstoðarbeiðni frá skemmtibát, með tvo menn í áhöfn,  sem var vélarvana norðan við hafnargarðinn í Vogum þar sem miklar grynningar eru.  Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF GNA var kölluð út auk þess sem björgunarskip og bátar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á svæðinu, sem og nærstaddir bátar voru beðnir um að fara til aðstoðar.

Tilkynning barst kl. 12:44 um að fiskibáturinn Hnoss væri kominn með bátinn í tog og sigldi með hann til Voga. Einnig var Jón-Oddgeir,  björgunarbátur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar  á staðnum.  Skömmu síðar var þyrla Landhelgisgæslunnar komin á staðinn en hélt fljótlega af svæðinu þar sem ekki var talin þörf á frekari aðstoð.