Fjórir bátar óskuðu eftir aðstoð

Fimmtudagur 7. apríl 2011

Um 400 bátar voru á sjó sl. þriðjudag sem er talsverð fjölgun frá því sem verið hefur enda ágætt veður og margir tækifærið nýttu tækifærið til veiða. Voru bátarnir í misgóðu ástandi sem kom í ljós þegar fjórar aðstoðarbeiðnir bárust til Landhelgisgæslunnar auk þess sem hafin var eftirgrennslan eftir bátum sem ekki voru með ferilvöktunarbúnað í lagi. Leystust þau mál þó farsællega áður en kom til útkalls á þyrlu Landhelgisgæslunnar eða aðrar tiltækar björgunareiningar.

Fyrsti báturinn óskaði eftir aðstoð Kl. 07:29. Var hann var vélarvana við Látrabjarg og óskaði eftir aðstoð Bjargar, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Rifi. Engin hætta var á ferðum. Björgunarskipið var samstundis kallað út og fór til aðstoðar. Önnur aðstoðarbeiðni barst kl. 08:48 frá bát á Breiðafirði sem tilkynnti um leka í vélarúmi. Þrír bátar voru beðnir um að stefna á staðinn, m.a. Björg sem kom að bátnum og lánaði öfluga dælu um borð eftir að tekist hafði að þétta lekann. Hélt Björg þvínæst til aðstoðar bátnum sem var vélarvana við Látrabjarg og dró hann inn á Rif.

Þriðja aðstoðarbeiðnin barst kl. 13:25 frá bát sem var vélarvana NV-af Garðskaga. Engin hætta var talin á ferðum og kallaði Landhelgisgæslan í bát sem var staddur í um 3 sml. fjarlægð. Fór hann til aðstoðar og dró bátinn til hafnar. Kl.13:46 óskaði fjórði báturinn eftir aðstoð, var hann staddur um 2 sml. SA-af Reykjanesi, með dautt á aðalvél. Haft var samband við nærstaddan bát sem lagði af stað til aðstoðar en var síðan afturkallaður þegar tókst að koma vél bátsins i gang. Sigldi hann undir eigin vélarafli til hafnar.