Tilkynning barst til LHG um bjarndýr í Hlöðuvík

2. maí 2011

Landhelgisgæslunni barst kl. 08:46 í morgun tilkynning frá fiskibát um bjarndýr sem þeir sáu í fjörunni í Hlöðuvík. Var samstundis haft samband við Umhverfisstofnun sem og lögregluna á Vestfjörðum,  auk þess var þyrla Landhelgisgæslunnar  sett í viðbragðsstöðu.

Eftir samráð við ofangreinda aðila var ákveðið að senda þyrlu á staðinn með lögreglumenn innanborðs. Skv. upplýsingum frá Umhverfisstofnun hefur verið haft samband við ferðamenn sem vitað er um á staðnum en þeir sem vita um ferðir fólks á svæðinu eru beðnir um að hafa samband við þá og greina frá stöðu mála, einnig láta lögregluna á Ísafirði vita af ferðum fólks.