Líf sækir slasaðan sjómann út á Reykjaneshrygg

Fimmtudagur 13. apríl 2006.
 
Björgunarstjórnstöðin í Madrid hafði samband við vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 7:16 í morgun og óskaði eftir aðstoð vegna slasaðs sjómanns um borð í spænska togararanum Farruco sem hefur verið að karfaveiðum á Reykjaneshrygg. Skipið var statt 210 sjómílur suðvestur af Reykjanesi er beiðni um aðstoð barst.
 
Varðstjóri Landhelgisgæslunnar í vaktstöð siglinga fékk þær upplýsingar frá Madrid að sjómaðurin væri með alvarlega brjóstholsáverka. Læknir í áhöfn Lífar, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, taldi nauðsynlegt að sækja manninn um leið og skipið væri komið nægilega nálægt landi til að þyrlan gæti sótt hann. 
 
Þær upplýsingar fengust frá skipinu að þar væri enginn enskumælandi um borð en skipverjar hefðu reynslu af móttöku þyrlu og hífingum. Skipstjóranum var sagt að sigla í átt að landi.
 
Líf fór í loftið kl. 12:51 en þá var skipið 150 sjómílur frá Reykjanesi. Þyrlan kom að togaranum á þriðja tímanum.  Hífing gekk vel og var maðurinn kominn um borð kl. 15. Flugstjóri áætlar að þyrlan lendi við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli um kl. 16:45.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.


Úr myndasafni: Líf á flugi yfir hafinu.