Skipt um stjórnklefa í TF SIF

Miðvikudagur 11. maí 2011

TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar sneri nýverið aftur til landsins eftir að breytingar voru gerðar á flugstjórnarklefa vélarinnar hjá Field Aviation í Kanada. Skipt var út 45 mælum sem áður voru í stjórnborði flugvélarinnar og í stað þeirra birtast upplýsingar nú á fimm rafrænum skjáum.  Eru þeir mun þægilegri í notkun og bjóða upp á ýmsa möguleika hvernig flugupplýsingar birtast. Skjáirnir eru mjög skýrir, með þægilegri lýsingu auk þess sem hægt er að deila upplýsingunum á milli allra fimm skjáanna eða sameina þær á einum. Með breytingunni batnar ekki aðeins umhverfi flugmanna heldur eykst geta flugvélarinnar í ólíkum verkefnum hennar  á sjó og landi. Einnig léttist flugvélin – sem um leið sparar eldsneyti – auk þess sem endurnýjunin á að draga úr viðhaldskostnaði og minnka áhættu á bilanatíðni.

Kanadíski flugvélaframleiðandinn Field Aviation, sem m.a. framleiðir Bombardier flugvélarnar, annaðist ísetningu búnaðarins sem fékkst á afar hagstæðum kjörum, þökk sé óformlegu samkomulagi  sem gert var við kaupin á TF-SIF. Er breytingin hagur beggja aðila. Að öðrum kosti hefði Landhelgisgæslan ekki haft möguleika á því að fjárfesta í breytingunni.


SIF_cockpit_MG_7992
Stjórnklefinn fyrir breytingu - 45 mælar í stjórnborði

SIF_cockpit_MG_0452
Eftir breytingu, fimm skjáir komnir í stað mælanna.

Endurnýjunin um borð í TF-SIF er sú fyrsta sem gerð hefur verið á Bombardier Dash 8 þotu og var útlitið sérstaklega hannað af Field Aviation fyrir Dash 8 100/200/300 tegundirnar.