Tvö þyrluútköll síðdegis

Fimmtudagur 12. maí 2011

Beiðni um útkall þyrlu Landhelgisgæslunnar barst kl. 16:47 þegar TF-LÍF var í gæslu- og eftirlitsflugi á Breiðafirði. Óskað var eftir aðstoð þyrlunnar vegna bílslys sem varð suður af Gilsfirði. Ekki var þyrlulæknir um borð en þyrlan hélt strax á staðinn og lenti var við slysstað kl. 17:02. Um var að ræða tvo einstaklinga sem voru strax flutt um borð í þyrluna, læknir af slysstað fylgdi þyrlunni á sjúkrahús. Farið var að nýju í loftið kl. 17:19 og lent við Landspítalann í Fossvogi kl. 18:00.

Annað útkall barst kl. 20:28 vegna konu sem  slasaðist við göngu í Esjunni. Var þyrlan á flugi í nágrenninu og kom hún á staðinn kl. 20:42 eða þegar björgunarsveitarmenn voru u.þ.b. hálfnaðir upp að konunni. Seig stýrimaður niður og gerði grunnskoðun sem vakti grunsemdir um beinbrot. Var konan þá hífð upp í þyrluna og flogið með hana á Reykjavíkurflugvöll þar sem sjúkrabíll beið og flutti hana á slysadeild. Tóku aðgerðir á vettvangi aðeins um 5-6 mínútur.