Tveir vélsleðamenn lentu í snjóflóði í Hoffellsdal inn af Fáskrúðsfirði- viðbúnaður hjá Landhelgisgæslunni

Mánudagur 10. apríl 2006.

 

Mikill viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslunni í kvöld vegna snjóflóðs sem féll í Hoffellsdal inn af Fáskrúðsfirði en tveir menn sem voru á vélsleðum á svæðinu lentu í flóðinu og var annars þeirra saknað um tíma.  Björgunarsveitarmaður með leitarhund fann manninn u.þ.b. tveimur klukkustundum eftir að hann lenti í flóðinu. Ekki er hægt að greina frá ástandi hans að svo stöddu.

 

Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð og var fulltrúi Landhelgisgæslunnar þar á meðan á aðgerðum stóð.

 

Áhöfn Sifjar, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út  kl. 18:44.  Óskað var eftir að þyrlan færi austur til þess að flytja björgunarmenn frá Austfjörðum á vettvang. Áhöfn þyrlunnar mat aðstæður svo að þegar þyrlan kæmi austur myndi hún ekki nýtast í þetta verkefni vegna myrkurs þar sem nætursjónaukabúnaður þyrlunnar hefur ekki verið vottaður og því ekki hægt að nota hann sem stendur. Þyrlan var því afturkölluð um kl. 19:16.  Ákveðið var að hafa hana tilbúna til leitar í dagrenningu ef á þyrfti að halda.

 

Þá var brugðið á það ráð að óska eftir aðstoð Varnarliðsins.  Áhöfn þyrlu Varnarliðsins fór þegar að meta aðstæður og gera sig klára í verkefnið.  Ákveðið var að kalla einnig út áhöfn Synjar, Fokkerflugvélar Landhelgisgæslunnar, til að flytja auka björgunarlið af suðvesturhorninu.

 

Varnarliðsþyrlan var í þann veginn að fara í loftið þegar þær fréttir bárust um kl. 20:20 að maðurinn sem saknað hafði verið væri fundinn. Voru þá bæði þyrla Varnarliðsins og Syn afturkallaðar. 

Þess ber er að geta að búið er að breyta ljósabúnaði Sifjar, minni björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, svo hægt sé að nota nætursjónauka í henni. Norskt fyrirtæki sá um verkið og er næsta skref að fá vottun flugmálayfirvalda.  Nætursjónaukar hafa verið í Líf, stærri björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, síðan árið 2002 og verður Líf komin í gagnið um páskana eftir 3000 tíma skoðun.

 

Dagmar Sigurðardóttir

lögfræðingur/upplýsingaftr.