Landhelgisgæslan og Flugmálastjórn undirrita samning

  • _IB_6324

Föstudagur 24. júní 2011
 
Landhelgisgæsla Íslands og Flugmálastjórn Íslands undirrituðu í gær samning sem varðar eftirlit Flugmálastjórnar með stjórnstöð Landhelgisgæslunnar JRCC Ísland (Joint rescue coordination center) og þeirri starfsemi sem þar fer fram vegna stjórnunar leitar- og björgunaraðgerða á leitar- og björgunarsvæði (SRR) Íslands vegna loftfara. Er farið fram á slíkt eftirlitshlutverk í viðauka 12 við Chicago sáttmálann.

Í úttekt Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) sem fram fór í október s.l. á starfssemi Flugmálastjórnar sem og á innleiðingu og framfylgni 16 af 18 Viðaukum við Chicago sáttmálann var starfsemi stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar einnig tekin út og hlaut hún afar góða umsögn. Þó var talin þörf á virku eftirliti með starfseminni eins og tíðkast hjá öðrum aðildarþjóðum ICAO. Er það hagur beggja aðila að tryggja viðeigandi eftirlit með starfseminni. 

FMS_LHG_Undirskr_1
Pétur K. Maack, flugmálastjóri og Georg. Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar
undirrita samninginn


Markmið samningsins er að tryggja örugga framkvæmd við innleiðingu og eftirlit vegna skuldbindinga Íslands við leitar og björgunarþjónustu. Einnig leitast báðir samningsaðilar við að skýra boðleiðir fyrir athugasemdir og ábendingar varðandi leitar- og björgunaraðgerðir á leitar- og björgunarsvæði (SRR) Íslands vegna loftfara. 


  FMS_LHG_Undirskr_2
Í samningnum segir; „Mikilvægt er að stjórn og skipulag leitar og björgunar sé með markvissum og skipulögðum hætti. Stjórnvöld leitar og björgunarmála hafa sett reglur um leit og björgun er viðhafa skal þegar loftfars er saknað eða því hefur hlekkst á eða það hefur farist, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

Með setningu nýrrar reglugerðar um leit og björgun, nr. 71/2011 var Landhelgisgæslu Íslands falið að annast leitar- og björgunaraðgerðir á leitar- og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara, en með reglugerðinni er leitast við að koma á samræmdri yfirstjórn leitar- og björgunarþjónustu á sjó- og flugbjörgunarsvæði Íslands. Þessari breytingu er ekki ætlað að hafa áhrif á þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist á þessu sviði.   
 
Þannig fer Landhelgisgæsla íslands nú með yfirstjórn og ber ábyrgð á leitar- og björgunarþjónustu á íslenska leitar- og björgunarsvæðinu og sér um að samhæfa leitar- og björgunarstörf allra tiltækra björgunaraðila á og yfir hafinu þ.m.t. vegna loftfara sem óttast er um, lenda í flugslysum eða er saknað.  Landhelgisgæslan gerir síðan samninga við þá aðila sem að starfseminni þurfa að koma eins og við á til að LHG geti uppfyllt hlutverk sitt eins og fram kemur í rg. nr. 71/2011.“

FMS_LHG_Undirskr_5
Halla Sigrún Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs FMS, Reynir Sigurðsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögu- og flugvallasviðs FMS, Pétur K. Maack, flugmálastjóri, Georg. Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Ásgrímur L. Ásgrímsson, núverandi yfirmaður JRCC Ísland og starfandi framkvæmdastjóri Aðgerðasviðs LHG og Svanhildur Sverrisdóttir, starfsmannastjóri LHG