Viðbúnaður vegna fiskibáta í slæmu veðri út af Vestfjörðum

Miðvikudagur 5. apríl 2006.

Skipstjórar þriggja línubáta sem staddir voru í vonskuveðri á Vestfjörðum höfðu samband við Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í hádeginu og óskuðu eftir að fylgst væri sérstaklega með þeim á meðan þeir sigldu að landi.  Þeir voru staddir í ísingu, kafaldsbyl og mjög hvassri norð-norðaustanátt u.þb. 10 sjómílur norðvestur af Kópanesi.  Þeir lýstu ekki yfir neyðarástandi en töldu rétt að láta vita af sér þar sem veðuraðstæður voru svo slæmar.

Vegna veðurs og ísingar missti vaktstöðin bátana oft út af skjá sjálfvirku tilkynningarskyldunnar og fjarskiptasamband var stopult af sömu ástæðum. Varðstjórar í Vaktstöðinni athuguðu hvaða skip voru nærstödd og úr varð að togarinn Páll Pálsson var beðinn um að hífa og halda í átt til bátanna en hann var þá staddur 30 sjómílur vestur af Kópanesi. Einnig var kannað í sjálfvirka tilkynningarkerfinu hvaða skip voru í nærliggjandi höfnum á Vestfjörðum.  

Að beiðni vaktstöðvar siglinga leysti áhöfn togbátsins Gunnbjarnar ÍS-302, sem var nýkominn inn til Flateyrar, landfestar og hélt til móts við bátana. Fiskiskipið Bjarni Gíslason, sem statt var á Patreksfjarðarflóa, gerði slíkt hið sama.  Vaktstöð siglinga setti einnig björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Vestfjörðum í viðbragðsstöðu, þ.m.t. áhafnir björgunarbátanna Gunnars Friðrikssonar á Ísafirði og Varðar á Patreksfirði. Áhöfn Varðar færði sig yfir í togbátinn Vestra frá Patreksfirði sem talinn var henta betur til aðgerða vegna veðurs og beið átekta.  Áhafnir björgunarbátanna létu Vaktstöð siglinga vita að kolvitlaust veður væri á Patreksfirði og Ísafirði.  Vegna veðurs og ísingarhættu var ekki talið ráðlegt að senda Sif, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, af stað enda hafði neyðarástandi ekki verið lýst yfir. Varðskipið Ægir, sem statt var við sunnanvert Snæfellsnes, var hins vegar sent áleiðis norður yfir Breiðafjörðinn. 

Skipstjórar fiskibátanna reyndu að vera í samfloti og miðaði þeim hægt og örugglega í átt að mynni Dýrafjarðar.  Samband náðist við þá af og til. Um kl. 13:30 tilkynntu bátarnir að þeir væru komnir á rólegri sjó í mynni Dýrafjarðar og smám saman var dregið úr viðbúnaði.  Síðustu björgunarskipin, varðskipið Ægir og togbáturinn Gunnbjörn, voru afturkallaðir kl. 13:45.

Upp úr kl. 14:30 höfðu bátarnir þrír náð höfn á Þingeyri heilu og höldnu.

Dagmar Sigurðardóttir                         Ásgrímur Ásgrímsson
lögfræðingur/upplýsingaftr.                   yfirmaður Vaktstöðvar siglinga