Fótspor mannsins sáust víða úr TF-GNA

  • GNA_BaldurSveins

Fimmtudagur 14. júlí 2011

Landhelgisgæslunni barst kl. 11:25 í gær beiðni frá lögreglunni á Hvolsvelli um þyrlu vegna leitar að erlendum ferðamanni  á Fimmvörðuhálsi, sem villtist í þoku og óskaði aðstoðar aðfaranótt miðvikudags vegna meiðsla á fæti.  Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 12: 05 og samkvæmt flugskýrslu TF-GNA hófst leit þyrlunnar í Þórsmörk, fyrst vestarlega á Eyjafjallajökli og inn eftir þar sem grunur lék á að maðurinn væri Þórsmerkurmegin á Fimmvörðuhálsi nærri Heljarkambi. Var þá ókyrrð í loftið og skyggni ekki mjög gott upp á jökulinn og hálsinn. Leit bar ekki árangur og var þá ákveðið að fara á Hellu til nánara samráðs með svæðistjórn. Að því loknu var farið aftur til leitar og kom einn björgunarsveitarmaður með þyrlunni til að fleiri gætu leitað ofan frá.

 Eftir nokkra leit sáust úr þyrlunni fótspor í snjónum nálægt Heljarkambi. Lágu fótsporin upp í þokuna svo að ekki var hægt fyrir þyrluna að elta þau. Tilkynnt var um fótsporin til aðgerðarstjórnar og haldið áfram leit. Þegar rofaði til á jöklinum elti þyrlan sporin að nýju. Var þá komið að því að taka eldsneyti og var flogið til tönkunar í Vestmannaeyjum. Síðan haldið áfram leitinni.

Bakpoki fannst á jöklinum kl. 18:15 sem passaði við lýsingu á bakpoka mannsins. Mikið var af fótsporum sem lágu víða um svæðið og virtist sem maðurinn hafi verið að leita að stað til að komast niður. Var ákveðið í samráði við svæðisstjórn að fá björgunarsveitarmenn til að fara að pokanum og rekja sporin í kring. Lent var í Básum og þrír menn ferjaðir að bakpokanum. Leit var síðan haldið áfram.

Tilkynning barst kl. 19:22 um að maðurinn væri fundinn og ekkert amaði að honum.  Var þá flogið á Hellu með björgunarsveitarmanninn og bakpokann og síðan haldið til Reykjavíkur þar sem lent var kl. 20:20.