Skipt um innsiglingardufl á Tálknafirði

Þriðjudagur 4. apríl 2006.

Landhelgisgæslan sér um ýmis verkefni fyrir Siglingastofnun samkvæmt sérstökum samningi þar um. Í honum felst m.a. að aðstoða við viðhald á duflum og vitum.

Í síðustu ferð varðskipsins Ægis skipti áhöfnin um innsiglingardufl á Tálknafirði. Duflið sem fyrir var, var tekið upp af skipinu, en því nýja var lagt út af tveimur léttbátum varðskipsins. Þegar duflinu var lagt út var hitastig um -7° C og fjörðurinn ísi lagður. Harðbotna bátur var notaður til að brjóta leið fyrir slöngubátana að þeim stað sem duflinu var lagt út.

Birgir H. Björnsson yfirstýrimaður á Ægi mundaði myndavélina á meðan félagar hans skiptu út duflinu.

Halldór Nellett

skipherra á Ægi

 

 

Hér er duflinu komið fyrir á milli tveggja báta við varðskipið Ægi. Í svarta bátnum eru Vilhjálmur Ó. Valsson stýrimaður og Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður. Í gráa bátnum eru Baldur Árnason og Rafn Sigurðsson hásetar. Ef vel er að gáð má sjá ísinn sem lagði yfir fjörðinn.


 

Hér er verið að draga duflið á staðinn með aðstoð harðbotna bátsins, sem þurfti að brjóta ísinn fyrir þá. Í harðbotna bátnum eru Gunnar Kristjánsson og Hinrik Haraldsson hásetar. Í slöngubátunum eru þeir sömu og á fyrri mynd.