Sif og Syn í erfiðu björgunarflugi norður í haf - veikur sjómaður af norsku selveiðiskipi fluttur til Reykjavíkur

Þriðjudagur 28. mars 2006

 

Björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, Sif, og Fokkerflugvélin Syn, flugu norður fyrir land í dag til að sækja veikan sjómann af norska selveiðiskipinu Polarsyssel.  Syn fylgdi þyrlunni til að halda uppi fjarskiptum og öryggisins vegna. Sif fór frá Reykjavík kl. 10:33 og lenti með veika manninn við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 18:16 en þaðan var hann fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús.

 

Skipið var statt var í hafís 190 sjómílur norður af Skaga kl. 5 í morgun er beiðni um aðstoð barst.  Skipinu var siglt eins og veður leyfði í átt að landi en aftakaveður var á svæðinu, norðaustan 25 m. á sek., snjókoma og lélegt skyggni. Ekki gekk þrautalaust að koma skipinu út úr ísnum og tók það nokkurn tíma.

 

Drægi björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, Sifjar, er u.þ.b. 140 sjómílur út á haf frá síðasta eldsneytistökustað.  Sif lenti fyrst á Dalvík vegna slæms skyggnis og veðurs en skömmu eftir komuna þangað rofaði til og gat þyrlan lent á Akureyri kl. 13:18 eins og stefnt var að til að taka eldsneyti.  Ferð þyrlunnar norður gekk þokkalega þrátt fyrir slæmt veður og snjókomu.  Hún þurfti að þræða ströndina frá Húnaflóa og þaðan áleiðis til Akureyrar.

 

Syn gat ekki lent á Akureyri vegna veðurs og varð að lokum að halda til Sauðárkróks til að taka eldsneyti eftir að Sif var komin að skipinu.

 

Björgunarþyrlan Sif fór frá Akureyri kl. 15:25 en þá hafði veður aðeins skánað.  Sif var kominn með sjúklinginn um borð kl. 16:32 en þá var norska skipið 49 sjómílur norður af Siglunesi.

 

Sif ætlaði að fara með sjúklinginn til Akureyrar en varð síðan að hætta við það þar sem hún komst ekki inn Eyjafjörðinn vegna lélegs skyggnis. Syn lenti í Reykjavík um kl. 18 og Sif kl. 18:16. Sjúklingurinn var fluttur með sjúkrabíl á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.

 

Syn, Fokkerflugvél Landhelgisgæslunnar, var alls 6 klst. og 30 mín. á flugi og mestallan tímann í snjókomu og norðaustan 20-25 m. á sek. Skýjahæð var lítil sem engin og skyggni lélegt.

 

Veiki sjómaðurinn er sænskur og var bæði sænska og norska sendiráðið í sambandi við Landhelgisgæsluna í dag vegna þessa.

 

Myndirnar af Polarsyssel tók Einar Örn Einarsson stýrimaður í áhöfn Synjar, Fokkerflugvélar Landhelgisgæslunnar. 

Dagmar Sigurðardóttir

lögfræðingur/upplýsingaftr.