Annar bátur strandar á Austfjörðum

Mánudagur 21. nóvember 2011 kl. 02:30

Tólf tonna fiskibátur með fjóra menn um borð strandaði í sunnanverðum Stöðvarfirði laust fyrir kl. 01:00 í nótt. Barst Landhelgisgæslunni beiðni um aðstoð frá bátnum kl. 01:03. Sögðu skipverjar bátinn vera skarðaðan í grjót og þeir geti nánast stokkið í land. Voru þeir ómeiddir og var því ekki talin alvarleg hætta á ferðum

Í annað sinn á hálfum sólarhring voru sjóbjörgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi kallaðar út. Að þessu sinni björgunarskipið Hafbjörg á Neskaupstað, harðbotna björgunarbáturinn Hafdís á Fáskrúðsfirði og björgunarsveitir á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík. Einnig var haft samband við Von, nærstaddan fiskibát. Þyrla Landhelgisgæslunnar var auk þess sett í viðbragðsstöðu.

Fyrstur á vettvang var fiskibáturinn Von og þegar björgunarbáturinn Hafdís frá Neskaupstað var kominn á vettvang var reynt að draga bátinn á flot, en áður höfðu 3 af 4 í áhöfn verið settir í land.  Ekki gekk að ná bátnum á flot og var því ákveðið að bíða flóðs sem verður um hádegisbil og gera þá aðra tilraun.

Björgunarskip og -bátar Slysavarnafélagsins Landsbjargar munu vera á strandstað í nótt til eftirlits og aðstoðar ef aðstæður breytast.

Ágætt veður er á staðnum 5-7 m/sek.