Þyrla Landhelgisgæslunnar fann neyðarsendi og aðstoðaði flugvél sem lenti í erfiðleikum

Laugardagur 11. mars 2006

Áhöfn Sifjar, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út í dag kl. 14:55 til að leita að neyðarsendi og tókst að staðsetja sendinn í smáíbúðahverfinu í Reykjavík. Þyrlan var einnig kölluð út til að leiðbeina flugvél sem lenti í vandræðum yfir Þingvöllum.

Leit að sendinum hófst í gær en hann sendi stöðugt neyðarsendingar um gervihnött sem bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga.  Þegar leitin bar ekki árangur var að lokum brugðið á það ráð að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar til að miða út neyðarsendinn. Sif fór í loftið kl. 15:38 og gat áhöfnin skömmu síðar bent á svæðið þar sem neyðarsendirinn fannst. Starfsmaður Póst- og fjarskiptastofnunar og lögreglan fundu síðan sendinn og slökktu á honum. 

Sif lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 15:51 en stuttu síðar var áhöfnin kölluð út að nýju vegna flugvélar sem lenti í vandræðum yfir Þingvöllum.  Þetta var flugvél sem eingöngu var búin til sjónflugs en vegna veðurs og skyggnis voru sjónflugsskilyrði ekki til staðar lengur og var óskað eftir þyrlu til að leiðbeina vélinni. Þyrlan og flugvélin mættust síðan í mynni Borgarfjarðar kl. 16:44. Sif fylgdi flugvélinni til Reykjavíkur.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.