Þyrla LHG sækir slasaðan sjómann

  • GNA3_BaldurSveins

Föstudagur 25. nóvember 2011

Landhelgisgæslunni barst kl. 23:37 beiðni um að sóttur yrði skipverji sem slasaðist á hendi um borð í togara sem staddur er um 55 sjómílur SV af Reykjanesi. Var skipstjóra gefið samband við þyrlulækni sem mat ástand sjúklings svo að sækja þyrfti manninn með þyrlu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNA var kölluð út og fór hún í loftið kl. 00:45. Einnig var ákveðið, öryggisins vegna að Oddur V. Gíslason, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Grindavík yrði settur í viðbragðsstöðu. Eftir að veðurfarslegar aðstæður voru metnar nánar, var ákveðið að kalla einnig út bakvakt þyrlu Landhelgisgæslunnar og var hún til taks ef á þyrfti að halda.

Komið var að skipinu um kl. 01:15 og seig sigmaður þá niður með börur og undirbjó sjúkling fyrir flutning. Var hann síðan hífður um borð í þyrluna. Flogið var frá skipinu kl. 01:28 og lenti þyrlan á Reykjavíkurflugvelli kl. 01:56 þar sem sjúkrabifreið beið og flutti sjúkling á Landspítalann.

Á svæðinu var vestan kaldi, 3-4 metra ölduhæð og gekk á með éljum.