Kynning á gegnumlýsingarbifreið tollstjórans

  • IMG_8928

Þriðjudagur 17. janúar 2012

Starfsmenn tollstjórans kynntu nýverið fyrir starfsmönnum Landhelgisgæslunnar bifreið sem útbúin er gegnumlýsingarbúnaði. Var bifreiðin tekin til notkunar í byrjun árs 2009 og er hún notuð til að gegnumlýsa stærri hluti,  allt upp í flutningagáma,  á hafnarsvæðum og flugvöllum landsins. Hefur bifreiðin haft mikla hagræðingu í för með sér og gerir tollskoðun markvissari.

IMG_8902

Var kynningin mjög áhugaverð og gagnlegt var fyrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar að fræðast um tækjabúnað og notkunarmöguleika bifreiðarinnar. Miðlun upplýsinga og samnýting tækjabúnaðar milli stofnana er á meðal þess sem fjallað er um í samstarfssamningi sem Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og Snorri Olsen tollstjóri undirrituðu í desember 2009. Einnig tekur samstarfssamningurinn til samstarfs á vettvangi,  sameiginlegra eftirlitsverkefna, námskeiða, þjálfunar starfsmanna og starfsmannaskipta.

IMG_8918

Í tollalögum númer 88/2005 kemur fram að Landhelgisgæslan skuli veita Tollstjóra upplýsingar um komu og brottför skipa í utanlandsferðum svo fljótt sem við verður komið. Þá getur Tollstjóri falið starfsmönnum Landhelgisgæslu að annast tollgæslu.  Í lögum um Landhelgisgæslu Íslands númer 52/2006 kemur fram að Landhelgisgæslu sé heimilt að gera þjónustusamninga meðal annars um tolleftirlit.

Myndir Gunnar Örn Arnarsson

IMG_8876