Bátur sekkur skammt undan Látrabjargi

  • _MG_0566

Þriðjudagur 1. maí 2012 kl. 21:50

Rétt fyrir klukkan níu í kvöld barst Landhelgisgæslunni neyðarkall frá fiskibátnum Lóu sem staðsettur var um 0,5  sml NV af Látrabjargi. Sagði hann nærstaddan bát, Krummi RE-98, vera kominn á hliðina og skipverji bátsins kominn í sjóinn. Samstundis kallaði stjórnstöð LHG út Vörð, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Patreksfirði og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Örfáum mínútum síðar eða kl. 21:04 tilkynnti skipverji Lóu að hann hefði náð manninum úr sjónum, hann væri kaldur og þrekaður en óslasaður. Þeir héldu þegar í stað til Patreksfjarðar.

Var þá útkall þyrlu LHG afturkallað en Vörður er á leið á staðinn til að ná upp björgunarbát Krumma sem flýtur á sjónum og neyðarsendir hans sendir reglulega út Cospas Sarsat neyðarskeyti.

Krummi er frambyggður plastbátur, um 6 metra langur.