Landhelgisgæslan stýrir aðgerðum á vettvangi

  • Fernanda_LIF_Sandgerdi

Laugardagur 5. maí 2012 kl. 11:30

Samkvæmt upplýsingum frá aðgerðastjórn Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð hefur áhöfn varðskipsins Þórs, ásamt lögreglu nú rætt við áhöfn Fernanda og mun skipstjóri flutningaskipsins  sjálfur reyna að ná skipinu á strandstað á háflóði síðar í dag. Varðskipið Þór verður áfram á staðnum og kemur til aðstoðar ef þörf verður á.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti lögreglumann um borð í skipið í morgun og verður hann um borð ásamt stýrimanni frá varðskipinu Þór.  Björgunarsveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Sandgerði verður einnig til aðstoðar á svæðinu.

Landhelgisgæslan stýrir aðgerðum á vettvangi og fer Auðunn Kristinsson, yfirstýrimaður með framkvæmdastjórn aðgerða. Einnig verður hann, ásamt Ásgrími L. Ásgrímssyni fyrir hönd Landhelgisgæslunnar í samhæfingarstöð almannavarna í dag en þar fer fram stjórn aðgerða vegna flugslysaæfingar á Keflavíkurflugvelli.

Mynd Himar Bragi Bárðarson