Veikur skipverji sóttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar

  • LHG_utkall03052012

Mánudagur 7. maí 2012

Landhelgisgæslunni barst kl. 21:43 í gærkvöldi aðstoðarbeiðni frá rússneska togaranum ORLIK sem staðsettur var á Reykjaneshrygg, um 200 sjómílur frá Reykjanesi. Óskað var eftir að þyrla myndi sækja alvarlega veikan skipverja og eftir samtal skipstjóra við þyrlulækni var ákveðið að sækja manninn. Þar sem um langa vegalengd er að ræða var nauðsynlegt að kalla út tvær þyrluáhafnir og verður önnur þeirra í viðbragðsstöðu.

Fór þyrla Landhelgisgæslunnar í loftið upp úr kl. 23:00 og var komið að togaranum kl. 00:54 í nótt eða þegar togarinn var um 170 sjómílur SV af Reykjanesi. Seig sigmaður niður og kom sjúkling fyrir í börum og var hann hífður beint upp þar sem læknir tók á móti honum. Lent var við Landspítalann í Fossvogi kl. 03:09.

Mynd úr safni LHG