Maðurinn fundinn á Skeiðarárjökli

  • GNA3_BaldurSveins

Þriðjudagur 5. júní 2012

Þyrla Landhelgisgæslunnar fann um kl. 16:50 manninn sem leitað var að á Skeiðarárjökli og sendi út neyðarboð kl. 13:34. Í flugskýrslu TF-LÍF segir að flogið hafi verið að punktinum sem neyðarboðin bárust frá upphaflega og síðan út fyrir jökulröndina. Eftir stutt flug náðust merki frá neyðarsendinum og var miðað inná staðinn. Maðurinn fannst þá í fjallshlíð við jökulröndina á austanverðum jöklinum. Var hann heill á húfi og amaði ekkert að honum en hann villtist á svæðinu og gerði hárrétt með að senda út neyðarboðin.

Var þá lent með undanfara niður við jökulröndina til að létta þyrluna áður en farið var í að hífa manninn ásamt búnaði um borð. Var síðan flogið til eldsneytistöku á Höfn í Hornafirði. Farið var í loftið frá Höfn kl.18:10 og lent við skýli Landhelgisgæslunnar kl.19:50.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarboð frá gerfihnattaneyðarsendi með staðsetningu á austanverðum Skeiðarárjökli. Eftir að staðfesting hafði fengist á boðunum var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð til leitar og fór hún á staðinn með undanfara SL. Auk þess voru björgunarsveitir á Suðausturlandi kallaðar út.