Aðgerðin reyndi mjög á hæfni þyrluáhafnar

Þriðjudagur 4. september 2012

Landhelgisgæslunni barst kl. 20:08 í gærkvöldi frá 1-1-2 beiðni um aðstoð þyrlu eftir að maður féll í Jökulsá í Lóni. Takmarkaðar upplýsingar fengust frá staðnum aðrar en að fólk í hestaferð var að fara yfir ána og féll þá einn úr hópnum af baki og hvarf sjónum samferðamanna. Fimm manns voru í sjálfheldu á eyri úti í ánni.

Í flugskýrslu segir að TF-LÍF fór í loftið kl. 20:38 og var mikil ókyrrð á flugleiðinni, við Stokksnes var vindur um 50 hnútar, lágskýjað og vindbelgur inn jökulsáraurana. Samband náðist við björgunarsveitarbíl þegar innar var komið og fengust frá þeim upplýsingar að maðurinn hefði fundist látinn og mjög miklu máli skipti að ná fimm manns sem voru í sjálfheldu á eyrinni ofar í ánni. Einnig þurfti að sækja þrjá menn sem voru komnir í Múlaskála  rétt neðan við eyrina.

Reyndi þyrluáhöfnin alloft að komast að mönnunum en vegna erfiðra aðstæðna þurfti þyrlan alltaf frá að hverfa þar til lokatilraun bar árangur. Náðist að lenda og sækja fimm menn sem þar voru. Voru þeir fluttir upp á Illakamb þar sem þeir fóru í bíl Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Var síðan flogið að Múlaskála og náðist að taka þrjá menn sem þar voru og selflytja þá upp á Illakamb.

Var að lokum hinn látni sóttur og flogið á Hornafjörð þar sem lent var kl. 00:04. Björgunaraðgerðin reyndi mjög á hæfni þyrluáhafnar og fór björgun þeirra sem voru í sjálfheldu giftusamlega þar sem aðstæður voru mjög erfiðar á staðnum.