Tveir slasaðir sóttir í sjúkraflugi björgunarþyrlunnar Lífar í Landmannalaugar og Bláfjöll

Sunnudagur 15. janúar 2006.

Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk hringingu frá Neyðarlínunni kl. 14:33 en tilkynnt var um að karlmaður hefði orðið fyrir slysi á vélsleða skammt frá Landmannalaugum. Ekki var símasamband við slysstað en samband haft með talstöð.  Þyrluáhöfn var upplýst um þetta en ekki var strax óskað eftir aðstoð þyrlu.

Rúmum 10 mínútum síðar hafði lögreglan í Vík samband og óskaði eftir þyrlu til að sækja slasaða vélsleðamanninn. Að sögn lögreglunnar var blíðuveður á svæðinu.  Áhöfn Lífar, stóru björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, var þegar kölluð út

Líf fór í loftið kl. 15:12 og var komin á slysstað um kl. 15:50.  Talið var að hinn slasaði væri með brjóst- og bakáverka en líðan hans var stöðug á meðan á fluginu stóð.

Skömmu eftir að Líf var komin í Landmannalaugar fékk Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hringingu frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi en óskað var eftir þyrlu til að sækja stúlku sem hafði slasast í Bláfjöllum. Áhöfn Lífar var þegar tilkynnt um það og lenti þyrlan í Bláfjöllum kl. 16:43.  Þar voru sjúkraflutningamenn frá SHS búnir að setja hina slösuðu á bakbretti og undirbúa hana fyrir flutning.  Líf fór síðan í loftið frá Bláfjöllum þremur mínútum síðar og flutti bæði hin slösuðu á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi en þar lenti þyrlan kl. 16:51.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.


Páll Ástþór Jónsson lögreglumaður í Kópavogi tók þessa mynd af björgunarþyrlunni Líf er hún var að lenda í Bláfjöllum til að sækja slasaða stúlku.  Þyrlan var að koma úr Landmannalaugum þar sem hún hafði sótt slasaðan vélsleðamann.  Rauði bjarminn er frá blysi sem notað var til að leiðbeina þyrlunni að slysstaðnum.