Danir opna nýjar höfuðstöðvar fyrir Norðurslóðir

  • Nuuk_ArktiskKommando1

Fimmtudagur 1. nóvember 2012

Nýjar höfuðstöðvar Dana fyrir björgunar- öryggis- og varnarmál á Norðurslóðum - Arktisk Kommando voru í gær opnaðar við hátíðlega athöfn. Á meðal gesta voru Margrét Þórhildur Danadrottning, Nick Hækkerup öryggis- og varnarmálaráðherra Danmerkur,  General Peter Bartram, yfirmaður varnarmála (Danish Chief of Defence), grænlenska og færeyska landstjórnin og kanadískir samstarfsaðilar. Einnig var fyrrverandi yfirmaður fyrir Grønlands Kommando,  Henrik Bunde Kudsk aðmíráll viðstaddur ásamt nýjum yfirmanni Arktisk Kommando, Stig Østergaard Nielsen hershöfðingja.

Auk þess var Landhelgisgæslunni boðið enda á hún í miklu samstarfi við Dani og er nú enn mikilvægara en áður fyrir Ísland að taka þátt í samstarfi þjóða á Norðurslóðum. Gert er ráð fyrir að á næstu árum eigi siglingar um hafsvæðið eftir að aukast gífurlega og því þurfa þjóðirnar að vera í nánu samstarfi og viðbúnar ef kemur að áföllum. Liður í því var leitar- og björgunaræfingin SAREX Greenland Sea 2012 sem fór fram í byrjun september. Var hún haldin er í tengslum við samning Norður Heimskautsráðsins vegna leitar og björgunar. Sjá nánar. Landhelgisgæslan hefur ætíð átt í miklu samstarfi við danska flotann sem annast eftirlit-, löggæslu, leit og björgun við Grænland og Færeyjar. Reglulega eru haldnar sameiginlegar æfingar og einnig eiga stjórnstöðvarnar í miklu samstarfi varðandi öflun, miðlun og greiningu upplýsinga af ýmsu tagi.

Arktisk Kommando (MRCC Grønland - Joint Arctic Command) eru nýjar höfuðstöðvar Dana vegna björgunar-öryggis- og varnarmála á Norður-Atlantshafi og Norðurskautssvæðinu sem urðu til við sameiningu stjórnstöðvanna á Grænlandi og í Færeyjum.  Höfuðstöðvarnar í Nuuk verða starfsræktar með um fjörtíu starfsmönnum en einnig verður rekin starfsstöð með fjóra starfsmenn í Þórshöfn í Færeyjum og var hún vígð samhliða höfuðstöðvunum.  Varðskip danska flotans sem og loftför flughersins sem starfrækt eru frá Grænlandi, umhverfis Færeyjar og annarstaðar á norðlægum slóðum heyra nú öll undir nýju höfuðstöðvarnar.

Nánar um Arktisk Komando.

Nuuk_ArktiskKommando3
Hátíðleg athöfn í nýjum höfuðstöðvum

Nuuk_ArktiskKommando2
Danadrottning fékk blómvönd við komuna.

Myndir fengnar af vef Sermitsiaq en þar má einnig finna nánari upplýsingar um Arktisk Komando;

http://sermitsiaq.ag/node/106240
http://sermitsiaq.ag/node/139435