Áhöfn Sýnar stóð færeyskan togara að meintum ólöglegum veiðum

Miðvikudagur 11. janúar 2006.

 

Í lok síðustu viku stóð áhöfn Sýnar, flugvélar Landhelgisgæslunnar, færeyskan togara að meintum ólöglegum veiðum í íslensku efnahagslögsögunni rétt innan við miðlínuna milli Íslands og Færeyja.  Deilur hafa staðið um legu miðlínunnar og var færeyski togarinn 1.9 sjómílur fyrir innan íslensku lögsögumörkin samkvæmt færeyskri túlkun en 8.4 sjómílur fyrir innan mörkin samkvæmt íslenskri túlkun.  Landhelgisgæslan var ekki með varðskip í nágrenninu og þar af leiðandi var ekki hægt að færa togarann til hafnar.  Áhöfn Sýnar reyndi ítrekað að ná sambandi við togarann með fjarskiptum og ljósmerkjum en fékk ekkert svar. Færeyski togarinn hefur ekki leyfi til veiða í íslenskri lögsögu og vanrækti auk þess tilkynningarskyldu og braut með því gegn lögum nr. 22/1998 um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

 

Eftir að yfirstýrimaður í áhöfn Sýnar hafði skilað skýrslu um málið að kvöldi 5. janúar sl. var ákveðið að óska eftir aðstoð lögregluyfirvalda í Færeyjum við rannsókn málsins með milligöngu Ríkislögreglustjórans.  Óskað var eftir því að lögreglan færi um borð í togarann við komu til Færeyja og yfirheyrði skipstjórann og aðra hlutaðeigandi, afli yrði rannsakaður sem og skipsbækur og fl.  Málið var sent til Færeyja aðfararnótt 6. janúar sl. fyrir milligöngu alþjóðadeildar Ríkislögreglustjórans og er til rannsóknar hjá lögreglunni í Þórshöfn. Óvíst er hvert framhald málsins verður á þessari stundu en til greina kemur að gefa út ákæru hérlendis og freista þess að rétta yfir skipstjóranum eða forráðamönnum útgerðarinnar ef þeir láta sjá sig innan íslenskrar lögsögu.

 

Til fróðleiks má nefna að Íslendingar og Færeyingar hafa ekki verið á eitt sáttir um legu miðlínunnar.  Vegna þessa gerðu utanríkisráðherra Íslands og lögmaður Færeyja samkomulag um afmörkun umdeilda hafsvæðisins 25. september 2002.  Sjá fréttatilkynningu á heimasíðu utanríkisráðuneytisins um þetta á slóðinni:
http://utanrikisraduneyti.is/frettaefni/frettatilkynningar/nr/159

 

Forsenda fyrir því að hægt væri að ganga frá formlegum afmörkunarsamningi milli Íslands og Færeyja, sem næði til lögsögunnar allrar, var að ljúka tæknilegri endurskoðun grunnlínupunkta hvors lands um sig.  Landhelgisgæslan og Loftmyndir luku endurskoðun grunnlínupunktanna seinni partinn í júní 2005 en úrvinnsla gagnanna stendur enn yfir og að því loknu verður gengið frá formlega frá samkomulaginu.

 

Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./fjölmiðlaftr.


Úr myndasafni. Sýn á flugi yfir varðskipinu Óðni. Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á varðskipinu Ægi.