Yfirmaður nýrra höfuðstöðva Dana í Nuuk heimsótti LHG

  • Þór - æfing við Grænland. Mynd Gassi.

Föstudagur 16. nóvember 2012

Stig Østergaard Nielsen hershöfðingi, yfirmaður nýrra höfuðstöðva Dana fyrir björgunar- öryggis- og varnarmál á Norðurslóðum - Arktisk Kommando, heimsótti í dag Landhelgisgæsluna ásamt samstarfsmanni sínum Major Kim Marchuard Mikkelsen.

Arktisk Kommando (MRCC Grønland - Joint Arctic Command) varð nýverið til við sameiningu stjórnstöðvanna á Grænlandi og í Færeyjum.  Varðskip danska flotans sem og loftför flughersins sem starfrækt eru frá Grænlandi, umhverfis Færeyjar og annarstaðar á norðlægum slóðum heyra nú öll undir nýju höfuðstöðvarnar. Sjá frétt LHG frá opnun Arktisk Kommando.

DK_GL_heimsokn2_16112012
Snorre Greil, yfirstýrimaður LHG, Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri lofthelgis- og öryggismálasviðs LHG, Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkv.stjóri aðgerðasviðs LHG, Stig Østergaard Nielsen, hershöfðingi, Georg Kr. Lárusson, forstjóri LHG og Kim Marchuard Mikkelsen, major.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar tók á móti gestunum ásamt samstarfsmönnum. Hófst heimsóknin á hefðbundnum morgunfundi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og var síðan haldið í samhæfingarstöð Almannavarna þar sem  Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs kynnti verklag og helstu verkefni stjórnstöðvanna. Að því loknu var komið við hjá starfsmönnum sjómælingasviðs og sýndur árangur LHG á því sviði áður en haldið var til fundar þar sem rætt var samstarf við Arktisk Kommando, helstu verkefni Landhelgisgæslunnar og samkomulag Landhelgisgæslunnar við Dani á sviði leitar- björgunar- eftirlits og löggæslumála á hafinu. Einnig var ræddur árangur leitar- og björgunaræfingarinnar  SAREX Greenland Sea 2012, sameiginleg þjálfun og fleira.

DK_GL_heimsokn16112012
Kynning í samhæfingarstöð almannavarna.

Landhelgisgæslan og danski flotinn hafa lengi átt í góðu samstarfi og er nú enn mikilvægara en áður fyrir þjóðir á Norðurslóðum að starfa náið saman. Gert ráð fyrir auknum siglingum um hafsvæðið og þurfa því viðbragðsaðilar við Norður Atlantshaf að vera vel undirbúnir ef kemur að áföllum. Liður í því eru reglulegar æfingar, virk upplýsingamiðlun og greining af ýmsu tagi.

Forsíðumyndin sýnir varðskipið Þór við Grænlandi, léttabátur Þórs og danska varðskipsins Hvidbjörnen eru fremst á myndinni. ©Gassi/LHG

Nánar um Arktisk Kommando.

Myndskeið frá opnun Artisk Kommando.