Fjölveiðiskip lenti í vandræðum innarlega í Breiðafirði

  • TF-LIF_8625_1200

Þriðjudagur 20. nóvember 2012

Landhelgisgæslunni barst upp úr klukkan sex í morgun aðstoðarbeiðni frá fiskibátnum Þórsnesi II sem hafði tekið niðri á grynningu í Norðurflóa innarlega í Breiðafirði um 7 sjómílum suð-vestur af Reykhólum upp úr kl. 6 í morgun.  Veður var þokkalegt á staðnum og enginn leki virtist vera kominn að skipinu.  Landhelgisgæslan kallaði út og setti harðbotna björgunarbáta Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Stykkishólmi og Grundarfirði ásamt björgunarskipi á Rifi og björgunarsveit á Reykhólum í viðbragðstöðu.  Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var kölluð út og sett í viðbragðstöðu á flugvelli í Reykjavík. Grettir, skip Þörungavinnslunnar á Reykhólum bjó sig einnig til að fara að Þórsnesi II og vera til taks þegar félli meira að og von um að skipið losnaði af grynningunum. 

Skipstjóri Þórsness II tilkynnti kl. 07:44 að skipið hefði losnað að sjálfsdáðum af strandstað þegar flæddi að en háflóð verður um kl. 11:00 í dag.  Skrokkur og skrúfubúnaður skipsins virtist í lagi og heldur skipið undir eigin vélarafli til Stykkishólms til frekari skoðunar.  Þórsnes II er 233 brúttótonn að stærð, 32 metra langt og í áhöfn eru 9 manns.