Landhelgisgæslan semur við Framkvæmdasýsluna um samningsvöktun

  • IMG_1478

Fimmtudagur 10. janúar 2013

Í gær undirrituðu forstjórar Landhelgisgæslunnar (LHG) og Framkvæmdasýslunnar (FSR) þrjá samninga þar sem FSR tekur að sér að vakta samninga sem LHG hefur umsjón með og tengjast eignum NATO hér á landi.  

Fyrsti samningurinn snýst um leigu Olíudreifingar ehf. á olíubirgðastöð NATO í Helguvík, annar snýst um leigu Reykjaneshafnar á mannvirkjum NATO í Helguvíkurhöfn og sá þriðji snýst um leigu Vodafone ehf. á einum ljósleiðaraþætti í ljósleiðarastreng NATO, sem liggur hringinn í kringum landið.

Ástæða þess að Landhelgisgæslan leitaði til Framkvæmdsýslunnar með þessa vöktun er sú að innan FSR er sérhæfing á þessu sviði á meðan slík vöktun er ekki hluti af kjarnastarfsemi LHG.  Það er nýlunda að stofnanir ríkisins hafi með sér samvinnu á þessu sviði, þar sem leitast er við að tryggja að vöktunin eigi sér stað þar sem þekking og sérhæfing er til staðar.  Auk þess eru ofangreindir samningar þess eðlis að mikil ábyrgð og skyldur eru á viðkomandi fyrirtækjum að halda við og reka viðkomandi mannvirki og búnað með fullnægjandi hætti og hafa þarf eftirlit með því.  Framkvæmdasýslan er mjög vel til fallin að hafa eftirlit með slíkum rekstri og viðhaldi.  Jafnframt eru skyldur á LHG skv. samningunum sem Framkvæmdasýslan mun sömuleiðis vakta.

IMG_1467
Frá undirritun samningsins.

Ríkið gerir árlega fjölda leigu- og þjónustusamninga við einkaaðila og er að sjálfsögðu lögð mikil áhersla á að ríkið nái þar sem bestum samningum.  Við slíka samningsgerð er því oft leitað ráðgjafar hjá aðilum með mikla sérþekkingu á viðkomandi málefni.  Þegar samningar hafa verið undirritaðir taka yfirleitt aðrir aðilar innan ríkisgeirans við eftirfylgni með þeim og í mörgum tilfellum hafa þeir aðilar sérþekkingu á öðrum sviðum en samningsvöktun. Við þessar aðstæður skapast hætta á að ávinningur ríkisins af hagstæðum samningum glatist að hluta til vegna þess að þekkingu vantar til að halda á lofti ákvæðum viðkomandi samnings.

Það er von LHG og FSR að framangreindir samningar um samningsvöktun ryðji brautina hvað slíka samvinnu milli stofnana varðar og leiði til meiri ögunar í eftirfylgni með samningum sem ríkið gerir við einkaaðila.

IMG_1471
IMG_1472